Tucci verður með í Transformers 4

Leikstjórinn Michael Bay upplýsti um það í gær á kvikmyndaráðstefnunni CinemaCon sem nú stendur yfir, að leikarinn Stanley Tucci myndi verða á meðal leikenda í nýju Transformers myndinni, þeirri fjórðu í röðinni.

Bay er afar kátur að sagt er, með að hafa nælt í Tucci, en aðrir leikarar í myndinni eru Mark Wahlberg, sem leikur aðalhlutverkið og tekur við af Shia Labeouf sem aðalhetja myndarinnar, Jack Reynor og Nicola Peltz. Auk þess er von á tilkynningu frá Bay á næstu dögum um spennandi ungan leikara sem mun leika í myndinni.

Enn er ekki vitað hvaða persónu Tucci kemur til með að leika í myndinni.

Þessi fjórða Transformers mynd segir frá kraftmiklum hópi snjallra athafna – og vísindamanna sem ætla að reyna að draga lærdóm af fyrri árásum utan úr geimnum og reyna á mörk tækninnar á sama tíma og ævafornt og kröftugt Transformers illmenni veldur skelfingu á Jörðinni.

Hér að neðan má hlusta á samtal blaðamanns vefsíðunnar Collider.com við Michael Bay, en viðtalið gengur mest út á upptökutæknina í myndinni, en stórar senur í myndinni verða teknar með nýrri stafrænni IMAX þrívíddarmyndavél.