Tökur á framhaldi The Raid að hefjast

Tökur á framhaldi hasarmyndarinnar The Raid, Berandal, hefjast 19. janúar. Þetta tilkynnti leikstjórinn Gareth Evans á Twitter-síðu sinni.

Fyrsta atriði myndarinnar gerist tveimur klukkustundum eftir að The Raid endaði.

The Raid var tekin upp í Indónesíu fyrir aðeins eina milljón dollara en varð engu að síður mjög vinsæl. Evans ætlaði upphaflega að gera Berandal á undan The Raid en hætti við því ódýrara var að búa til þá síðarnefndu.

Berandal (sem þýðir Bófar) gerist í meiri víðáttu en í íbúðablokkinni í The Raid. Hún verður einnig lengri og gerist á lengra tímabili, eða þremur til fjórum árum. Að sjálfsögðu mæta ný illmenni til leiks, þar á meðal The Hammer Girl sem indónesíska fyrirsætan og leikkonan Julie Estelle leikur.