Tían: Ofmetnustu myndir áratugarins

Venjulega á Tían að vera á föstudögum en undanfarin tvö skipti hefur hún frestast um sólarhring. Fólk vonandi fyrirgefur, enda alltaf hellað mikið að gera í kringum desembermánuð. Allavega, þá held ég áfram að rýna í áratuginn sem fer bráðum að líða, og þar sem að ég taldi upp vanmetnustu myndirnar í síðustu viku þá er það eiginlega sjálfsagður hlutur að ég taki andstæðuna fyrir.


.:10 OFMETNUSTU MYNDIR ÁRATUGARINS… AÐ MATI UNDIRRITAÐAR:.

Persónulega þoli ég ekki þegar einhver segir „djöfull er …(einhver titill)… ofmetin mynd!“ án þess að koma með góð rök fyrir því, þannig að ég ætla að reyna mitt besta núna. Yfirleitt þegar maður fer að hrauna yfir það sem maður kallar ofmetið, þá koma klærnar út, sem að sjálfsögðu gerist þegar maður drullar yfir það sem meirihlutinn fílar. Vanmetnu listarnir eru þ.a.l. meira „safe“ því oftast er maður þar að hæpa upp myndir sem fáir hafa séð.

Áður en ég byrja er kannski best að svara spurningunni: Hvað kallar maður ofmetið?
Í mínum augum er ofmetið eitthvað sem hefur fengið talsvert meiri athygli en það átti skilið.

Enn og aftur, engar staðreyndir. Bara mínar skoðanir.

10. RAY (2004)

Miðjumoðsmynd borin uppi af einni góðri frammistöðu (þótt það sé ábyggilega ekki erfitt að herma eftir Ray Charles – passa bara að brosa og hreyfa sig nóg), og alveg eins og The Reader á síðustu Óskarshátíð þá átti þessi engan veginn skilið að vera tilnefnd sem besta mynd. Frekar hefði Walk the Line átt að vera tilnefnd þar, enda sama mynd, bara skemmtilegri og hlýrri.

9. TRAINING DAY (2001)

Kaldhæðnislega þá er þessi mynd líka ekkert sérstök, þrátt fyrir að vera vel leikin. Denzel fer samt dálítið í mig hérna. Hann ofleikur eins og hann sé að reyna að sækjast eftir Óskarsstyttunni (sem greinilega virkaði). Ég skil samt ekki hvernig hægt er að kalla þetta ‘gæðamynd.’ Hún er frekar innihaldslaus og kjánalega tilviljanakennd.

8. MÝRIN (2006)

Sennilega fyrsta íslenska myndin sem hafði skipulagðan og markvissan söguþráð. Hvert atriði þjónaði tilgangi og það sér maður ekki oft í íslenskum myndum. Hún er kannski þess vegna svona dýrkuð. Ég skildi samt aldrei „hæpið“ í kringum hana. Ég las bókina í skólanum á sínum tíma og fannst hún voða standard. Myndin keyrir atburðarásina ágætlega en hvað persónur varða er hún steindauð og yfirborðskennd. Ég er enginn brjálaður aðdáandi sakamálasagna en mér fannst ég kannast alltof mikið við þessa sögu, og það sem fangaði athygli mína var traustur leikur og gullfalleg kvikmyndataka (mana ykkur þó að fara í drykkjuleik þar sem skot er tekið í hvert sinn sem þyrluskot sést).
Og já, Mugison tónlistin var alltof, alltof þunglyndisleg. Það er eitt að búa til „moody“ andrúmsloft, en það er annað að henda áhorfandanum ofan í svarthol.

7. IRON MAN (2008)

Fín mynd en ekki nálægt því að vera jafn frábær og margir sögðu. Ummæli gagnrýnenda voru líka ekki lítið jákvæð. Jú, Robert Downey Jr. var frábær, en um leið og hann fór í búninginn datt ég út úr myndinni. Hasarinn var voða óspennandi og endabardaginn féll í skuggann á fyrstu Transformers-myndinni. Uppbygging myndarinnar var líka nákvæmlega eins og í Batman Begins. Pælið aðeins í því:

(SPOILER – auðvitað)

– Milljarðarmæringurinn Bruce Wayne/Tony Stark kynntur til sögunnar, einhvers staðar úti í rassgati
– Flashback sem sýnir hvernig hann komst þangað
– Wayne/Stark fær samvisku. Hann sleppur með látum. Hetjan fæðist.
– Miðkaflinn fókusar á Wayne/Stark og hvernig græjurnar verða til.
– Smá rómantik inn á milli
– Nálægt lokum komumst við að því að Liam Neeson/Jeff Bridges var aðalskúrkur myndarinnar frá upphafi. Wayne/Stark þekkti karakterinn vel og er vel sjokkeraður
– Einvígi í lokin. Hetjan byrjuð að fíla sig í lokin.

Er samt mjög forvitinn að sjá hvað Jon Favreau gerir við framhaldið.

6. RACHEL GETTING MARRIED (2008)

Ég var mjög spenntur að sjá þessa mynd sem gagnrýnendur héldu varla vatni yfir. Svo sá ég hana og gat ómögulega séð hvað var svona spes við hana. Anne Hathaway var æðisleg (sjá einnig Havoc) en myndin þolir það engan veginn að vera tæplega tveir tímar á lengd.
Þetta er eins og einhver hafi blandað saman þungri karakterstúdíu og
heimavídeómyndum. Senurnar í brúðkaupinu tóku sumar aldrei enda og voru
heldur ekkert áhugaverðar. Það þreytist áberandi eftir cirka 10 mínútur
að fylgjast með öðru fólki vera að dansa, sérstaklega þar sem
aðalpersónan dettur alveg úr fókus í þessum atriðum og myndin nánast
gleymir henni. Dramaatriðin náðu alveg til manns á köflum (og sumar
rifrildissenurnar voru álíka kröftugar og í Revolutionary Road) en um
leið og myndin endar finnst manni þetta allt hafi verið til einskis. Ég
fann ekki fyrir neinni breytingu og var ekkert minna sama um allt og
alla en í byrjun.

5. A BEAUTIFUL MIND (2001)

Þessi mynd væri ekki neitt án leikaranna. Þeir bera þessa klisjuveislu uppi. Það má vera að hún sé vönduð, en efnislega er þetta voða dæmigert melódrama sem fókusar ekki nægilega mikið á það sem gerir hana áhugaverða: geðraskanirnar. Í réttum höndum hefði þetta getað orðið mjög átakanleg karakterstúdía sem fjallar ýtarlega um geðklofasýki, en í staðinn fengum við silkimjúkt drama sem tekur engar áhættur og skilur merkilega lítið eftir sig. Í fullri alvöru, Moulin Rouge átti þennan Óskar betur skilið. Ef ekki þá In the Bedroom eða Gosford Park.

4. NAPOLEON DYNAMITE (2004)

Mig langar til að elska þessa mynd, en ég bara get það ekki. Ég hef horft á hana þrisvar sinnum allt í allt til að gefa henni séns en álit mitt breytist ekki neitt. Napoleon, sem er reyndar aulalega vel leikinn af Jon Heder, er einhver sorglegasta persóna sem ég hef eytt 90 mínútum með, og það segir mikið að aukapersónurnar séu ennþá hallærislegri. Mér líður eins og ég sé að horfa á geimverur þegar ég horfi á þessa mynd. Enginn hegðar sér eðlilega, allt er óvenju litríkt en ferlega dautt og tónlistin gerir mig brjálaðan á köflum (fyrir utan Jamiroquai lagið). Söguþráður er enginn og þegar myndin er búin leið mér eins og ekkert hafi breyst. Hún hefur sína spretti en það er langt á milli þeirra.

3. JUNO (2007)

Mynd sem gjörsamlega öskrar „Ég er kúl indí-mynd!“ Juno hefur fengið mikið lof fyrir handritið og tónlistina, sem er skondið því það tvennt böggar mig hvað mest við hana. Samtölin þykjast vera svo ótrúlega hipp og það er nánast niðurlægjandi hvað Diablo Cody reynir mikið að ná til unglinga með orðaforða sínum. Þetta er eins og að horfa fertuga foreldra ganga í hettupeysum með húfur öskrandi „W’sup?“. Maður fattar hvað þau eru að reyna að gera, en það tekst ekki. Tónlistin er síðan álíka pirrandi og góð með sig og titilpersónan sjálf. Það er mér óskiljanlegt að þessi mynd skuli hafa fengið Óskarstilnefningu fyrir bestu mynd. Hún var s.s. á sama lista og There Will Be Blood og No Country sátu á.

2. CRASH (2005)

Stórfín mynd, þó eiginlega meira eins og Diet-útgáfan af Short Cuts og Magnolia. Það eru nokkrar frábærar senur hér til staðar (eins og eitt tiltekið atriði með lítilli stelpu sem reynir að „bjarga“ pabba sínum. Ég fæ áfall í hvert sinn sem ég sé það) en persónusköpunin er voða veik og í svona „ensemble“ myndum er það mjög stór galli. Auk þess er það einum of tilviljanakennt að mínu mati hvernig allir tengjast. Samt mjög vel leikin og mikilvæg mynd að mörgu leyti. Hún hefði getað orðið að meistaraverki hefði hún verið lengri.

1. JÓHANNES (2009)

Ísland… hvað kom fyrir?? Síðan hvenær fórum við að dýrka svona húmorslausar tjörur í klessu?? Ég veit að flestir svara: „Nú, að því að þetta er Laddi!“
Vá, hvílík rök… Þetta er eins og ég færi að segjast elska pylsu með öllu ásamt rauðkáli og majónesi bara því mér finnst tómatsósa góð.

Ég hef oft gaman af Ladda eins og flestir aðrir en það þýðir ekki að hann eigi að komast upp með eins illa skrifaða, tilgerðarlega og leiðinlega gamanmynd og Jóhannes. Ef eitthvað þá á hann miklu betra skilið. Hver einasta persóna í þessari mynd er annaðhvort pappafígúra eða skopmynd. Sumir eru þarna bara til að segja ófyndna brandara. Söguþráðurinn er þunnur, stefnulaus og alltof, alltof sketsabundinn. Það sama gildir um þessa mynd og það sem ég sagði um Old Dogs fyrir stuttu: „Venjulega vefjast brandarar utan um tiltekna atburðarás, hérna er það akkúrat öfugt.

Ég hélt að við íslendingar höfðum betri húmor en þetta. Þegar ég hugsa um gott íslenskt grín þá hugsa ég um Sódómu Reykjavík, Stellu í Orlofi, Kalda Slóð og Fóstbræður („Spliff, Donk og Gengja…“). Í dag þykir frat eins og Jóhannes vera algjör snilld. Ég tel að flestir (aðallega fullorðnir, 40+) séu bara að hlæja henni því myndin ætlast til þess að þú hlæir að henni, á svipaðan hátt og Titanic ætlast til þess að þú grátir yfir sér.

Ég skal frekar horfa á alla seríuna af Marteini fimmtán sinnum í röð heldur en Jóhannes aftur og það ætti að segja heilmikið! Ég veit að ég á mér óvini ef ég fæ þessa mynd í jólagjöf.

Ég get ábyggilega nefnt slatta af öðrum ofmetnum myndum, en ég læt þetta duga. Ég bíð svo eftir maili frá aðstandendum síðastnefndu myndar.

Hverjar eru ofmetnustu myndir áratugarins að þínu mati? og af hverju finnst þér þær ofmetnar?

PS. Takk fyrir að senda inn hugmyndir. Ég mun pottþétt nota þær á nýja árinu. Í millitíðinni var ég spá í að halda upp á eitt stykki jól þannig að Tían mín kveður að sinni.