The Adjustment Bureau beint á toppinn – á DVD og Blu-ray

Þar sem við segjum hér reglulega fréttir af vinsælustu myndunum í bíó í Ameríku, er ekki úr vegi að segja stundum frá því hvað er að gerast á DVD markaðnum þar vestra.
Vinsælasta DVD myndin á markaðnum í Ameríkunni í dag er myndin The Adjustment Bureau, rómantísk vísindaskáldsaga með þeim Matt Damon og Emily Blunt í aðalhlutverkum, en hún rauk beint á toppinn á DVD listanum þegar hún kom út í síðustu viku. Aðrir nýliðar á listanum, Unknown, og Diary of a Wimpy Kid: Rodrick Rules, komu svo í öðru og þriðja sæti.

Þessar þrjár myndir, sem voru ekki meira en miðlungi vinsælar í bíó, ýttu vestranum True Grit niður í fimmta sæti á Nielsen VideoScan’s listanum, en Battle: Los Angeles, datt niður í 4. sætið, en sú mynd er á annarri viku á lista.
Á Blu-ray lista Nielsen’s voru sömu myndir í fyrstu tveimur sætunum, en Battle: Los Angeles og Wimpy Kid koma í sætunum þar á eftir.

Mest leigða myndin á vídeóleigum var, samkvæmt Home Media Magazine, Adam Sandler og Jennifer Aniston myndin Just Go With It. Engin nýju toppmyndanna á DVD og Blu-ray listanum komst á leigulistann þar sem útgefendur leyfa ekki að myndir séu settar á leigu, hvort sem er í vídeóleigu eða leigu á netinu, fyrr en 28 dögum eftir að þær eru gefnar út á DVD og Blu-ray.