Jon Cryer verður lofthrædda farartækið Dusty

Disney fyrirtækið tilkynnti í dag, á D23 sýningunni, að Jon Cryer, sem þekktastur er í dag fyrir að hafa leikið á móti Charlie Sheen í sjónvarpsþáttunum vinsælu Two and a Half Men, en margir muna einnig eftir úr hinum óborganlegu flug-gamanmyndum Hot Shots, muni tala fyrir Dusty í teiknimyndinni Planes. Planes er „útvíkkun“ á Cars teiknimyndunum og verður gefin út á Blu-ray og DVD vorið 2013.
Í Planes koma við sögu hraðfleygar flugvélar af ýmsu tagi, víða að úr heiminum. Þetta verður gamansöm mynd, en jafnframt spennandi og sneysafull af ævintýrum. Dusty er aðalpersónan, draumórafarartæki sem býr í litlum bæ en langar að taka þátt í sögufrægri flugkeppni í kringum jörðina, þrátt fyrir að vera mjög flughræddur.

Með hjálp og stuðningi fjölda nýrra og skemmtilegra karaktera, þá nær Dusty að taka þátt í þessu mesta ævintýri lífs síns.

Planes er fyrsta myndin í röð verkefna, þar sem ákveðin farartæki úr Cars myndunum fá sínar eigin myndir.