Spielberg aðlagar handrit eftir Kubrick

Steven Spielberg er þessa dagana að vinna í handriti sem Stanley Kubrick skrifaði um stórmennið Napóleon Bónaparte. Um er að ræða leikna sjónvarpsþætti, ekki kvikmynd.

Kubrick skrifaði handritið árið 1961 og lagði á sig mikla undirbúningsvinnu á sínum tíma og var handritið upphaflega skrifað sem kvikmynd. Framleiðendur trúðu ekki á verkefnið og vildu ekki fjárfesta í því svo það var sett á bið, nú er þessi 52 ára bið hugsanlega á enda.

Spielberg og Kubrick voru miklir vinir í seinni tíð og ræddu þeir m.a. um að gera saman kvikmyndina A.I.: Artificial Intelligence. Kubrick lést skömmu eftir umræðurnar og tók Spielberg við verkinu og leikstýrði henni.

Fréttir herma að Spielberg dvelji mikið í Frakklandi um þessar mundir og var meðal annars kjörinn formaður dómnefndar Cannes kvikmyndahátíðarinnar.