Vergirni á eftir heimsendi hjá Lars Von Trier?

Aðdáendur hins umdeilda danska leikstjóra Lars Von Trier bíða nú í ofvæni eftir að fá að berja
nýjustu afurð kappans, Melancholia, augum, en myndin er tlibúin og bíður þess að komast upp á hvíta tjaldið. Melancholia er geðtryllt hamfaramynd, eins og henni er lýst í frétt á Empire vefnum.

Í frétt Empire segir einnig að Von Trier sé nú kominn með hugann við næsta verkefni, sem gæti orðið The Nymphomaniac, en það er orð yfir sjúklega vergjarna konu.

Þessi mynd er önnur tveggja sem Von Trier hafði verið að velta fyrir sér að gera, en viðskiptafélagi leikstjórans, Peter Aalbaek Jensen, lagði til að The Nymphomaniac væri líklegri til vinsælda en hin myndin, sem heitir Dirt in Bedsores.

Samkvæmt Empire þá er allt eins líklegt að þetta sé samt allt bara grín, en á móti kemur að þessi titill hljómar alls ekki ólíklega þegar Trier á í hlut.

Von Trier lýsir myndinni sem mynd um erótíska fæðingu konu: um konu sem uppgötvar erótíkina í sjálfri sér.

Melancholia hinsvegar, fjallar um tvær systur, sem leiknar eru af Charlotte Gainsbourg og Kirsten Dunst, og hvaða áhrif það hefur á samband þeirra þegar von er á heimsendi þegar pláneta klessir á jörðina.

Myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor, og verður frumsýnd í Bretlandi 1. júlí nk.

Stikk: