Kevin Smith í stríð við fjölmiðla

Leikstjórinn Kevin Smith hefur lengi átt í strembnu sambandi við fjölmiðla og gagnrýnendur, en nú hefur hann ákveðið að taka ekki lengur þátt í þeim skrípaleik. Smith, sem hefur leikstýrt myndum á borð við Mallrats, Dogma og Clerks, býr sig nú undir að næsta mynd hans, Red State, verði frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni snemma á næsta ári.

Á Twitter síðu sinni segir Kevin Smith að hann muni ekki bjóða upp á sérstakar sýningar á Red State fyrir gagnrýnendur, en slíkar sýningar tíðkast vestanhafs, né gefa kost á sér til viðtala. Eins og hann orðar það sjálfur, „Allir sem eru forvitnir geta séð nákvæmlega hvað ég er að hugsa hérna á Twitter síðunni minni“. Leikstjórinn hefur lengi verið ósáttur með fjölmiðla sem hafa í gríð og erg vitnað rangt í orð hans, snúið úr þeim eða fjallað um hann og verk hans á almennt ósanngjarnan hátt, samkvæmt Smith sjálfum.

Red State, sem er fyrsta hryllingsmynd leikstjórans sem hefur hingað til haldið sig við gamanmyndir, er ekki enn komin með dreifingaraðila. Fjölmiðlar vestanhafs eru heldur duglegir að svara fyrir sig og benda á að Smith muni eiga erfitt með að finna einhvern til að dreifa mynd sem leikstjórinn sjálfur neitar að auglýsa í fjölmiðlum. Segist Kevin Smith vilja leyfa Red State að standa á eigin fótum, en ekki á auglýsingabrellum og fölskulegum viðtölum við sig og leikhópinn.

– Bjarki Dagur