Skriður kominn á endurgerð Highlander

Hver man ekki eftir Highlander myndunum, um manninn sem var ódrepandi og lifði í gegnum aldirnar óbreyttur á öllum tímum. Sögusagnir hafa verið lífseigar um endurgerð fyrstu myndarinnar, og nú virðist sem skriður sé að komast á málið. Collider vefsíðan segir frá því að RCR Media Group hafi sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að þeir muni fjármagna endurgerð myndarinnar ásamt Summit Entertainment og Neal Moritz Production.
Í tilkynningunni segir að leikstjóri Fast Five, Justin Lin, sé enn tengdur við verkefnið, þó ekki sé 100% víst að hann komi til með að taka að sér verkefnið, enda hafa vinsældir hans aukist mjög á síðustu tveimur vikur eftir að Fast Five sló í gegn. Til að mynda þá vilja Universal núna ólmir gera sjöttu myndina af Fast and the Furious, auk þess sem Lin á að leikstýra Terminator 5. Þannig að nú er spurningin – hvort er meira freistandi, Fast Six og Terminator, eða Highlander? Eða á hann kannski bara eftir að gera þetta allt saman.