Stuttmyndakeppni unga fólksins

Stuttmyndakeppnin Háskerpa beinir athygli sinni að ungu og efnilegu kvikmyndagerðafólki á aldrinum 15-25 ára og er keppnistímabilið frá 1. mars til 6. apríl. Það eru vegleg verðlaun í boði og er m.a. Canon LEGRIA R36 vídeóvél frá Nýherja fyrir fyrsta sætið. Erpur Eyvindarson og Ólafur Darri Ólafsson dæma keppnina og náðum við tali á þeim fyrrnefnda.

Hvernig kom það til að þú varst kjörinn dómari keppninnar?

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á kvikmyndum, gert slíkar, leikið í þeim, unnið að þeim, gagnrýnt þær og svo framvegis.

Frá hvaða sjónarhóli ætlar þú að dæma myndirnar?

Ég tek alla þættina sem gera kvikmynd. Handrit, flæði og frumleiki. Tækniatriði skipta að sjálfsögðu líka máli þ.e.a.s. kvikmyndataka, lýsing og klipping. Maður labbar ekki inn á veitingastað og dæmir út frá djúpsteiktu kartöflunum. Maður dæmir staðinn í heild sinni og þannig á að dæma kvikmyndaverk.

Hefur þú reynslu af stuttmyndagerð?

Þegar ég var 14 ára stofnaði ég og Eyjólfur bróðir minn kvikmyndafyrirtæki með Grími Hákonarsyni. Við unnum stuttmyndasamkeppni félagsmiðstöðvanna með mynd sem heitir „Stami 2“. Hún fjallar um gaur sem eftir að hafa verið nær brenndur til bana af fjölskyldu sinni sem hataði stamið í honum, fer í sálfræði og raflost meðferð sem læknar hann af staminu. í kjölfarið hefst nýtt líf.

Hver er þín uppáhalds stuttmynd?

Decalouge stuttmyndirnar hans Krzysztof Kieslowski, aðalega „Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns“ og „Þú skalt ekki aðra guði hafa“.

Það má með sanni segja að dómgæslan sé í góðum höndum og fá fyrstu þrjú sætin skrifleg gagnrýni frá dómnefnd.

Nánari upplýsingar varðandi reglur og innsendingar má finna á heimasíðu Háskerpu.