Stanslaus, heilalaus hasar að mínu skapi

Munið þið eftir senunni í fyrstu Harold & Kumar-myndinni þar sem tvær skólastelpur eru staddar á almenningsklósetti og keppast um það hvor þeirra geti átt háværri og blautari ræpu? Þetta vinalega flipp hjá þeim átti sér nafnið BattleSHIT og var sennilega besta dulda ádeila á borðspilið Battleship sem ég hef séð, þótt það geti verið lúmskt skemmtilegt í rétta félagsskapnum – og ég mæli eindregið með drykkjuleiknum, BattleSHOTS. Mig langar svo mikið að geta sagt að þessi bíómyndaútgáfa af borðspilinu sé nákvæmlega eins og þessi ósmekklega sena, bæði vegna þess að mér finnst orðið Battleshit vera barnalega fyndið og líka vegna þess að samlíkingin væri dásamleg ef myndin væri sorp- og úrgangshrúga af hæstu gráðu.

Battleship er svosem ekki að blekkja neinn, því hún er að mörgu leyti draslmynd, en hún er þó draslmynd sem ég kann að meta. Ég hef verið misjafnlega hrifinn af Peter Berg sem leikstjóra í gegnum tíðina. Hann er oft góður að búa til grípandi skot með dýnamískum kameruhreyfingum en hann tekur líka oft ákvarðanir sem ég bara hreinlega skil ekki stundum. Á yfirborðinu lítur bíómyndin Battleship út eins og ódýr (en samt rándýr) tilraun hjá Hasbro til þess að nota gamalt, þekkt vörumerki (borðspilið) til að græða peningafjall með því að selja þessa mynd eins og hún sé líkari öðru vörumerki sem allir kannast við (Transformers). Fólk verður að skilja það að álit mitt á þessari mynd gæti verið svolítið litað af því að væntingar voru gjörsamlega á botninum. Ég hreifst hvorki af hugmyndinni né leikstjóranum, og ég setti stórt spurningarmerki við leikaravalið fyrir utan nokkra aðila.

Strax um leið og þessi mynd byrjar kemur í ljós að hún er epísk VITLEYSA á sambærilegu stigi og Michael Bay-myndir, kaldhæðnislega. Hún tekur sig samt aldrei fullalvarlega og virðist fullkomlega vita hvernig best skal vinna úr þessum bjánalegu hráefnum. Berg tekur sig stuttan tíma til að kynna helstu persónur, sambönd þeirra og stilla upp söguþræðinum áður en hann kynnir okkur fyrir þessari skepnu sinni, sem situr föst í læstu búri (slakið á, þetta er myndlíking). Hann hristir búrið reglulega áður en hann sleppir því síðan lausu og verður allur fjandi laus það sem eftir er af lengdinni. Um leið og Battleship er komin í gang helst fjörið stanslaust á floti (pun intended) með miklum hávaða, grimmdarlega góðri flugeldasýningu og tilgerðarlegum töffaraskap sem lætur Top Gun líta út fyrir að fara laumulega að hetjudýrkuninni. Með hverju atriði magnast steypan og fór hún oft á tíðum að verða svo hlægileg að ég lifði mig meira inn í þetta þroskahefta fjör.

Battleship gæti ekki verið meira stolt af því að vera heiladauð og þess vegna nýtir hún hvert tækifæri til að lemja klikkuðum hasar og sci-fi fíling ofan í áhorfandann, því í rauninni væri annað óásættanlegt. Það sakar heldur ekki að myndin virðist ekkert hafa tíma fyrir þreytta, klisjukennda bíórómantík (taktu vel eftir þessu, Michael Bay) inni í öllu kaosinu. Við fáum stutt innlit í ástarsögu, en það er meira notað sem bakgrunnur fyrir lykilpersónurnar (sem eru á sitthvorum staðnum út mest alla myndina) í stað þess að vera heilt aukaplott. Berg reynir að sjá til þess að þessi túr sé meira fyrir testósterónið. Það er reyndar gaman að sjá einnig sterkar og hugrakkar kvenpersónur sem taka aktívan þátt í atburðarásinni og hasarnum. Það er aldrei sjálfsagður hlutur í strákabíói.

Berg notar svipaðan striga og Bay gerði með Transformers (og mögulega eitthvað af sömu hljóðbrellunum líka), en hann er með allt aðra liti og gerólíkan stíl. Battleship er að ýmsu leyti svipuð og augljóslega gerð fyrir sama markhóp en samt allt öðruvísi í keyrslu, tón og söguþræði. Bay hafði það samt miklu auðveldara en maður hélt, enda held ég að það sé minna krefjandi að búa til svala og skemmtilega bíómynd um risastór geimvélmenni sem breytast í faratæki í stað þess að tækla einhæft borðspil sem gengur út á það að setja litla pinna í númeruð hnit. Í smástund heldur maður að Berg ætli að tengja myndina og spilið sem minnst en myndin er óvenjulega trygg uppruna sínum. Hún „pimpar“ þetta augljóslega mikið upp, og gerir það með sparlegri fánadýrkun, yfirdrifnum hetjuskap, magnaðri brellusúpu af dýru gerðinni, Liam Neeson í uppstækkuðu gestahlutverki, geimverur með þykka hökutoppa og búninga sem minnir ótrúlega mikið á Halo.

Ég bjóst fyrirfram við því að Battleship myndi sjúga (eða sökkva! Svo maður hljómi eins og algjör lúði), en sorrý, ég hafði bara alltof gaman af henni. Mér finnst gaman að horfa á stjórnlausar afþreyingarmyndir sem skammast sín ekkert fyrir það að vera seinþroska og einfaldar. Leikurinn er ekkert alltaf tilkomumikill (ég bjóst nú samt við mun verra frá Brooklyn Decker og Rihönnu) og línurnar í handritinu oft alveg hroðalegar. Í verri heimi hefði þessi mynd getað verið 20 mínútum lengri, stútfull af (meiri) gervidramatík og  persónum sem okkur er skítsama um. Ég vildi bara sjá ýkt og barnalegt ofbeldi og ég fékk nákvæmlega það, í þokkalega fullnægjandi skömmtum. Góða mynd fékk ég svosem ekki, en að minnsta kosti langar mig núna að kaupa mér leikföng og rakettur svo ég geti sprengt upp hluti tímunum saman.

Þessi Taylor Kitch þarf samt að læra nýjan leikstíl. Mér líkar vel við manninn en finnst hann mætti minnka það næst að píra augun og dýpka röddina, því annars mun enginn halda að hann geti eitthvað annað. Kappinn stendur sig prýðilega hérna og gengur öll persónuörkin hans út á það að sanna sig fyrir Liam Neeson og vinna sér inn hans samþykki, sem er ekkert nema glæsilegt markmið í lífinu að mínu mati. Ætli honum takist það?


 (7/10)