Stallone leitar að arftaka í leikstjórastólinn

Leikarinn og leikstjórinn Sylvester Stallone hefur ekki hug á að leikstýra Expendables 2, eins og búist hafði verið við, en hann leikstýrði fyrstu myndinni, The Expendables.

Hann er sagður hafa verið að leita að undanförnu að öðrum leikstjóra til að taka við af sér, en sú leit hefur ekki enn borið árangur.

Varðandi handritaskrif þá sá hann um þá hlið mála, með aðstoð nokkurra aðila, í fyrri myndinni, en nú virðist hann ætla að láta það verkefni einnig í hendur annarra, eða þeirra David Agosto og Ken Kaufman.

Frá þessu er sagt á vefmiðlinum Empire Online, en tekið er fram að ekkert af þessu séu opinberar upplýsingar ennþá, og alveg eins megi búast við því að Stallone leikstýri aftur. En eftir að hafa sinnt mörgum hlutverkum við gerð fyrri myndarinnar, og skilað af sér mynd sem sló óvænt í gegn síðasta sumar, þá er ekki ólíklegt að hann slaki aðeins á og láti duga að leika í næstu mynd.

Af öðru sem er að frétta af myndinni, þá herma óstaðfestar fregnir að félagi Stallone úr harðhausadeildinni, sjálfur ríkisstjórinn fyrrverandi Arnold Schwarzenegger taki hugsanlega að sér stærra hlutverk nú en í fyrri myndinni, þar sem hann hefur rýmri tíma eftir að hann lét af störfum sem ríkisstjóri í Kaliforníu. Arnold hefur látið hafa eftir sér að hann hafi áhuga á að láta aftur að sér kveða í kvikmyndum, og hann ku vera með nokkur handrit á náttborðinu hjá sér.