Spurlock fer í One Direction

Íslandsvinurinn og Óskarstilnefndi kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock, 42 ára, sem er þekktastur fyrir heimildamynd sína Super Size Me, þegar hann borðaði eingöngu McDonalds í heilan mánuð, mun leikstýra bakvið tjöldin – heimildamynd um bresku strákahljómsveitina geysivinsælu One Direction.  Myndin verður í fullri bíómyndalengd, og í þrívídd í þokkabót.

„Þetta er ótrúlegt tækifæri og frábært fyrir hljómsveitina einmitt núna,“ sagði Spurlock í yfirlýsingu.

Þessi mynd fylgir í fótspor vinsælla mynda af svipuðum toga eins og myndarinnar um Justin Bieber frá 2011, Never Say Never, en sú mynd þénaði 73 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum og myndarinnar um söngkonuna Katy Perry,  Katy Perry: Part of Me, en hún hefur þénað meira en 25 milljónir dala, sem þykir mjög gott.

Búist er við að nýjasta plata One Direction fari á topp bandaríska vinsældarlistans í næstu viku, en þeir hafa verið kallaðir næst vinsælasta breska hljómsveitin í Bandaríkjunum síðan Bítlarnir voru og hétu.

Í hljómsveitinni eru þeir:  Harry Styles, Niall Horan , Zayn Malik, Liam Payne og Louis Tomlinson, en þeir slógu upphaflega í gegn í  X Factor hæfileikakeppninni í Bretlandi, og eru á mála hjá Syco hljómplötufyrirtækinu, sem er í eigu sjálfs Simon Cowell, X-Factor dómara.

12 milljónir eintaka hafa selst af plötum hljómsveitarinnar.

Myndin verður frumsýnd í ágúst á næsta ári, 2013.