Skrautlegur Falskur fugl – Nýtt plakat

Það styttist í frumsýningu íslensku myndarinnar Falskur Fugl sem gerð er eftir samnefndri bók Mikaels Torfasonar, en samkvæmt upplýsingum á vef Senu verður myndin frumsýnd þann 25. janúar nk.

Nú er komið nýtt plakat fyrir myndina þar sem aðalleikari myndarinnar, Styr Júlíusson, stendur  í úlpu með all skrautlegan útkrotaðan vegg í baksýn

 

Falskur fugl fjallar um Arnald, 16 ára ungling sem verður fyrir gríðarlegu áfalli þegar hann kemur að eldri bróður sínum látnum eftir sjálfsmorð.

„Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Mikaels Torfasonar sem kom út árið 1997 og vakti mikla athygli. Handrit myndarinnar er eftir Jón Atla Jónasson (Frost og leikverkið Djúpið sem samnefnd mynd Baltasars Kormáks var að hluta byggð á), en leikstjóri er Þór Ómar Jónsson sem hér sendir frá sér sína fyrstu mynd í fullri lengd,“ segir um myndina á vef Senu.

Sjáðu stikluna hér að neðan:

Falskur fugl gerist yfir jól, þegar svartasta skammdegið er ríkjandi á Íslandi og raunveruleikinn getur verið hvað hráslagalegastur. Í kjölfar sjálfsmorðs bróður síns má segja að veröld Arnalds hrynji og um leið tvístrar harmleikurinn fjölskyldu hans.

Arnaldur höndlar ekki bróðurmissinn, situr uppi með fjölmargar spurningar en engin svör og leiðist út í óreglu sem á ekki eftir að bæta líf hans.

Myndin verður frumsýnd þann 25. janúar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikk: