Schwimmer áfram bannaður

Friends stjörnunni og leikstjóranum David Schwimmer mistókst í dag að fá mildað aldurstakmarkið á nýjustu mynd sína Trust, en myndin fjallar um hætturnar á internetinu.

Von er á myndinni í bíó 1. apríl nk. en myndin fék R stimpil vegna atriða í myndinni þar sem sést nauðgun á unglingi, blótsyrði, og kynferðislegt efni og ofbeldi.

Dreifingaraðilinn Millennium Entertainment áfrýjaði stimplinum, en nefndin sem sér um að setja aldurstakmörk á myndir, the Motion Picture Association of America’s Classification and Rating Appeals Board, var ófáanleg til að breyta skoðun sinni.

Framleiðandi myndarinnar Avi Lernar hefur sagt í yfirlýsingu að það væri mikilvægt fyrir unglinga að geta séð myndina, til að sýna þeim hætturnar sem geta legið í því þegar t.d. kynferðisofbeldismenn nota netið til að komast í kynni við börn og unglinga.

Schwimmer hefur sagt að hann vilji ekki klippa myndina til til að hún fái lægra aldurstakmark.
Aðalhlutverk í myndinni leika þau Clive Owen og Catherine Keener.