Rotten verður stökkbreytt svín

John Lydon, öðru nafni Johnny Rotten úr pönksveitinni Sex Pistols og PIL, mun tala fyrir ófrýnilegt illmenni í nýrri teiknimyndaseríu frá Nickelodeon um Ninja skjaldbökurnar;  Rise of the Teenage Mutant Ninja Turtles.

Rotten mun fara með hlutverk Meat Sweats, valdagráðugs stökkbreytts svíns.

Teiknimyndaserían verður frumsýnd í september nk. á Channel 5 og Nicktoons, en sagt var frá þessu á Comic-con afþreyingarhátíðinni í San Diego. Ný stikla var einnig frumsýnd á hátíðinni, sem sjá má hér fyrir neðan:

Fyrrum fjölbragðaglímustjarnan og gamanleikarinn John Cena er einnig á meðal leikenda, en hann leikur hinn illvíga Baron Draxum, á móti Game of Thrones leikkonunni Lena Headey sem leikur Big Mama, sem er gríðarstór stökkbreytt könguló. Þá leikur Rhys Darby Hypno-Potamus, flóðhest sem er jafnframt stökkbreyttur töframaður.

Serían er byggð á hinum sígildu teiknimyndasögum frá níunda áratug síðustu aldar, en hér  er á ferðinni fjórða teiknimyndaserían sem framleidd er. Þættirnir fjalla um stökkbreyttar skjaldbökur sem berjast gegn glæpum í New York borg. Einnig hafa sex kvikmyndir verði gerðar um skjaldbökurnar, fimm leiknar og ein teiknuð.