Rose McGowan fékk risavaxið enni

Endurgerð Conan the Barbarian, sem vaxtaræktartröllið og leikarinn Arnold Schwarzenegger lék í snemma á ferlinum og lyfti honum upp á stjörnuhimininn í Hollywood, verður frumsýnd um næstu helgi í Bandaríkjunum og hér heima á Íslandi einnig.
Rose McGowan leikur hina illu seiðkerlingu Marique í myndinni, en hún skartar risavöxnu 10 tommu enni í myndinni.
Aðspurð segir hún að framleiðendur hefðu óskað eftir því við hana að raka af sér augnabrúnir og raka fremsta hárið af sér til að búa til hærra enni.
„Ég sagði: Glætan, nema þið borgið mér fimm milljónir dala,“ sagði Rose í samtali við Access Hollywood.
Útlit hennar, eins og sést á meðfylgjandi mynd, var því búið til að öllu leyti með farða og kvikmyndabrellum. „Ég sat í förðunarstólnum frá kl. 2 á nóttunni til 7 um morguninn,“ segir Rose.

Í hlutverki Conans sjálfs er Jason Momoa en hann hefur áður leikið í m.a. Game of Thrones þáttunum sem verða teknir til sýninga hér á landi nú í haust.

Rose segir að Jason sé frábær í hlutverkinu: „Hann er eins og [höfundur upprunalega Conan ] Robert E. Howard ímyndaði sér persónuna…. hann lítur út eins og hann hafi stigið beint út úr teiknimyndasögublaði. Hann er fæddur til að slást með stóru sverði.“

Smellið hér til að skoða sýnishorn úr myndinni.