Riff fer að hefjast!

Fimmtudagurinn 27. september er alveg að renna upp!

Þá hefjast ellefu klikkaðir dagar sem kallast Reykjavík International Film Festival, eða bara RIFF. Allir sannir kvikmyndaunnendur á höfuðborgarsvæðinu og þó víðar væri leitað reyna að fá allavega smjörþefinn af hátíðinni með því að mæta á nokkrar sýningar og viðburði. Sumir taka þetta alla leið, taka út sumarfríið í vinnunni, kaupa passa, og eru svo bara niðri í  BíóParadís, Háskólabíói og Norræna Húsi í 11 daga samfleytt.

Við hjá kvikmyndir.is munum í ár halda úti betri umfjöllun um hátíðina en við höfum nokkurntíman áður gert, og hlakkar okkur mikið til. Á annað hundrað mynda verða sýndar, sem augljóslega er ekki nokkur leið að komast yfir… en við munum segja ykkur frá því hvaða myndir okkur þykir frábærar, hverjar hitta ekki í mark (það eru alltaf einhverjar), fjöldanum öllum af sérviðburðum sem verða í boði, og bara öllu sem okkur dettur í hug sem tengist hátíðinni!

Þangað til getið þið kíkt á hið vægast sagt fjölbreytta úrval kvikmynda sem í þetta skiptið verða sýndar og reynt að sigta perlurnar sem þið hafið áhuga á úr þessum hafsjó kvikmynda. Annars er það nú þannig að oft hittir maður á bestu myndirnar algjörlega blindandi. Svo er það bara að skella sér niður í Eymundsson í Austurstræti til þess að næla sér í passa (9.200, eða 7.500 fyrir nema), 8 mynda klippikort (7.500), eða stakan miða (1.200). Sjáumst í bíó!

Stikk: