Psycho sjónvarpsþættir í bígerð ?

Sjónvarpsstöðin A&E Network er að athuga möguleikann á því að gera sjónvarpsþáttaröð eftir einni af frægari myndum meistarans Alfred Hitchcock, Psycho. Ef þættirnir verða að veruleika munu þeir koma út á næsta ári, en málið er á byrjunarstigi í dag.

Ef þættirnir verða gerðir munu þeir einblína á forsögu Psycho, þ.e. þeir munu kafa djúpt í persónuleika Norman Bates frá unglingsaldri og reyna að komast að því af hverju hann breyttist í morðóðan brjálæðing.

Þó svo að hugmyndin sé góð tek ég þessu með fyrirvara. Psycho ‘franchisið’ hefur verið mjólkað allhressilega, m.a. með misjöfnum framhaldsmyndum árin 1983 (Psycho II) og 1986 (Psycho III). Það kom einnig út ‘prequel’ árið 1990 sem hlaut nafnið Psycho IV: The Beginning og var aðeins sýnd í sjónvarpi. Engin þessara mynda tókst að fanga stemningu upprunalegu Psycho myndarinnar eftir Hitchcock, enda var Hitchcock á einstökum stalli þegar kom að því að gera myndir. Ekki má gleyma útgáfu Gus van Sant af Psycho sem kom út 1998 og undirritaður á á DVD (ég er ekki stoltur af því).