Páfagaukur slær met í miðasölu

Þrívíða teiknimyndin Rio um hinn Brasilíska macaw páfagauk, setti nýtt aðsóknarmet í bandarískum bíóhúsum um helgina, en myndin átti þá bestu frumsýningarhelgi ársins. Myndin var einnig í fyrsta sæti í Evrópu, aðra vikuna í röð, að því er dreifingaraðili myndarinnar 20th century fox sagði í samtali við Reuters fréttastofuna.

Tekjur af sýningu myndarinnar í Bandaríkjunum og Kanada um helgina námu 40 milljónum Bandaríkjadala, og stóðst myndin allar væntingar framleiðenda. Myndin er einnig jákvæð frétt fyrir kvikmyndaiðnaðinn, en tekjur af bíómyndum í Norður-Ameríku eru 19% minni það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil á síðasta ári.

Fyrra aðsóknarmet á frumsýningarhelgi á þessu ári átti önnur teiknimynd, Rango með Johnny Depp í aðalhlutverkinu, en hún er enn aðsóknarmesta mynd ársins og er búin að þéna 119 milljónir dala.

Rio, sem kostaði 90 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu, fjallar um Blu, sjaldgæfan páfagauk ( sem Jesse Eisenberg úr Social Network talar fyrir ) sem snýr aftur til heimahaganna í Brasilíu eftir að hafa átt heima í Bandaríkjunum, þangað sem honum var smyglað. Myndinni er leikstýrt af Carlos Saldanha frá Rio de Janeiro, en hann er einnig leikstjóri Ice Age þríleiksins

Í öðru sæti aðsóknarlistans um helgina lenti hryllingsmyndin Scream 4, sem er fyrsta Scream myndin í 11 ár. Tekjur af myndinni námu 19,3 milljónum dala, sem var nokkuð undir væntingum. Með aðalhlutverk fara þau David Arquette, Courteney Cox og Neve Campbell.

Aðsóknin að Scream 4 var heldur daprari en sú sem Scream 3 fékk þegar hún var frumsýnd árið 2000, en þá komu 34,7 milljónir dala inn frumsýningarhelgina. Sú mynd hægði samt fljótt á sér, og endaði á því að þéna „aðeins“ 89 milljónir dala – sem er það minnsta sem Scream mynd hefur þénað. Fyrstu myndinni sem er frá árinu 1996 hefur gengið best, en hún þénaði 103 milljónir.

Hop datt niður í þriðja sætið með 11,2 milljónir dala, og er búin að þéna allt í allt 82,6 milljónir.

Ein önnur ný mynd á lista, The Conspirator, eftir Robert Redford, lenti í níunda sæti með 3,9 milljónir, það sama og Your Highness, sem þykir hafa floppað þar vestra.