Opið hús á Netflix

13 Reasons Why-leikarinn Dylan Minnette fer með aðalhlutverkið í hryllingsmyndinni The Open House sem verður frumsýnd á streymiveitunni Netflix þann 19. janúar næstkomandi.

Myndin fjallar um mæðginin Logan og Naomi Wallace sem flytja tímabundið í hús hjá skyldmennum í smábæ í Bandaríkjunum. Skyldmennin eru að reyna að selja eignina og eru því með opið hús á sunnudögum þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri á að skoða húsið að innan sem utan.

Ný stikla úr myndinni var opinberuð á dögunum. Í henni má sjá mæðginin reyna að koma sér fyrir í þessum litla smábæ. Bæjarbúar eru undarlega forvitnir og gefa sig á tal við þau við hvert einasta tækifæri. Undarlegir hlutir fara að gerast innan hússins og fá þau engin svör frá lögreglu né bæjarbúum og verða þau því að reyna að leysa hlutina sjálf.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.