Óbyggðarmynd Neesons hrellir dýravini

Nýjasta kvikmyndin með gamla harðjaxlinum Liam Neeson, The Grey, hefur valdið titringi meðal dýravina fyrir meðferð sína og viðhorf í garð úlfa, en spenna myndarinnar byggist á því að eftirlifendur flugslys í Alaska-fylki þurfa að lifa af í óbyggðum þar þegar villtir úlfar fara að sækjast að þeim í hungur- og verndarskyni.

Myndin hefur vakið upp ýmsa brandara á netinu síðan stiklan var gefin út á síðasta ári þar sem Neeson sést undirbúa sig fyrir að berja úlfa með því að festa á hnefana brotnar mini-bar flöskur og vasahnífa. Sumir líta myndina hinsvegar mjög alvarlegum augum og hafa stofnað facebook-síðu í þeim tilgangi að sniðganga mynd Neesons fyrir meðferð á úlfum við gerð myndarinnar og hvernig þeir eru hafðir sem ill“menni“ í myndinni.

Facebook-síðan greinir frá því að myndin máli upp ranga staðalmynd af úlfum sem hefur lengi verið höfð í Hollywood, en samkvæmt síðunni hefur einungis eitt dauðsfall að sökum villtra úlfa átt sér stað í kringum þetta svæði Norður-Ameríku síðan 1883. Aðstandendur síðunnar telja að myndin muni hafa svipuð áhrif á skoðun almennings á úlfum og Jaws hafði fyrir hvíthákarlinn og þannig líklegast valda óþarfa úlfadrápum í kjölfarið. Dýraverndarfélagið WildEarth Guardians tekur einnig undir ummælin um að sniðganga myndina.

Það bætir ekki úr skák að fregnir hafa borist af Neeson og tökuliðinu að gæða sér á úlfakjöti við tökur myndarinnar, en leikstjórinn Joe Carnahan vildi á þann hátt að leikararnir settu sig í fótspor persóna myndarinnar. Einnig voru tvö úlfahræ notuð sem leikmunir í myndinni. Taka skal fram að tökulið myndarinnar olli ekki dauða úlfanna. Úlfarnir sem Neeson kynnir fyrir hnefum sínum í myndinni eru tölvuteiknaðir.

Hvernig leggst þetta í lesendur? Persónulega langar mig virkilega að sjá Liam Neeson berja tölvuteiknaða úlfa í óbyggðartrylli, en sem náttúrudýrkandi og dýravinur er ég ekki hrifinn af hvernig Joe Carnahan nýtti sér fjögur úlfahræ við gerð myndarinnar. Eru þetta öfgahugmyndir hjá facebook-hópnum um myndina?