Avatar 1 býr okkur undir Avatar 2

Stórmyndin Avatar frá árinu 2009, ein vinsælasta kvikmynd allra tíma, með 2,8 milljarða dala í tekjur um heim allan og þrenn Óskarsverðlaun, kemur aftur í bíó hér á landi og út um allan heim föstudaginn 23. september í uppfærðri útgáfu.

Bláir tónar.

Eins og segir í grein í bandaríska blaðinu The New York Times er ástæðan fyrir endurkomu kvikmyndarinnar í bíó sú að áhorfendur geti endurnýjað kynnin við söguheiminn sem heillaði fólk svo mjög á sínum tíma.

Myndin á einnig að búa fólk undir nýju myndina, framhaldsmyndina Avatar: The Way of Water, sem væntanleg er á hvíta tjaldið 16. desember nk.  Myndin á eins og blaðið segir að minna áhorfendur á hvað það var sem þótti svo einstakt við fyrri myndina.

Tik Tok lag eftir Kesha

Í greininni er rifjað upp að afþreyingarheimurinn hafi litið öðruvísi út árið 2009. Horft var meira og minna á sjónvarpsseríur í sjónvarpstækjum. Tik Tok var vinsælt popplag eftir Kesha. Og aðeins tvær kvikmyndir höfðu verið frumsýndar í Marvel heiminum, þ.e. árið á undan.

Avatar tók því kvikmyndaheiminn með trompi.

Myndin er vísindaskáldsaga þar sem landtökumenn frá Jörðinni og Na’vi frumbyggjar berjast um náttúruauðlindir á fjarlægu tungli sem kallast Pandora.

Stikla fyrir endurútgáfuna.

Í kjölfar velgengninnar fór hinn margverðlaunaði Cameron, sem hafði gert Titanic, True Lies og The Terminator, af stað í að gera framhald af Avatar í fjórum hlutum.

Cameron segir í samtali við New York Times að Avatar væri gerð fyrir stóra tjaldið. „Fólk fær að lykta af rósunum. Það fer í ferðalag. Ef þú ert að taka upp flugatriði eða neðansjávaratriði í fallegu kóralrifi, þá hefurðu atriðið aðeins lengra en ella, svo fólk fái að njóta, og það upplifi sig í ferðalagi með persónunum.“

Kate Winslet, til vinstri, og Cliff Curtis leika meðlimi Metkayina, sem er Na’vi þjóðflokkur, í framhaldsmyndinni.

Hefur elst vel

Cameron segir aðspurður í samtalinu að Avatar hafi elst vel og eftir að hafa séð hana aftur nýlega finnist honum hún vel samkeppnishæf við það sem best gerist í dag.

Blaðamaðurinn spyr hann m.a. út í hvernig kvikmyndaiðnaðurinn hafi breyst frá því fyrri myndin kom út. Cameron segir að neikvæðu breytingarnar séu augljósar. Allir hafi nú aðgang að streymi heima hjá sér og faraldurinn hafi gert að verkum að fólk hafi þurft að setja sig í raunverulega lífshættu til að fara í kvikmyndahús. En það jákvæða væri að fólk sé að koma aftur í bíó, enda hafi það mikla þörf fyrir það. „Við erum enn með 20% minni aðsókn en fyrir faraldurinn, en þetta er að koma hægt og rólega til baka. Að hluta til vegna skorts á stórmyndum sem fólk vildi sjá í kvikmyndahúsi. En Avatar er ekta svoleiðis mynd. Þú verður að sjá hana í kvikmyndahúsi.“

Á fullu gasi.

Spurður um hvort að fólk hafi mögulega misst tengslin við persónurnar á þessum þrettán árum síðan fyrri myndina kom út segir Cameron því til að hann hafi gert framhaldsmyndina Aliens sjö árum eftir fyrstu myndina Alien. Hún hafi gengið vel. Þá hafi hann gert Terminator 2 sjö árum eftir fyrstu myndina. Hún hafi slegið í gegn og aflað meiri tekna en fyrsta myndin. „Ég hélt að þetta væri kannski of langur tími á milli Avatar 1 og Avatar 2 eða þar til við sendum frá okkur kitluna og fengum 140 milljón áhorf á 24 klukkustundum.“

Stikla nýju myndarinnar.