Avatar fær nýja byrjun 16. nóvember

Eins og við höfum sagt hér frá á kvikmyndir.is þá er sérstök viðhafnarútgáfa af þrívíddar-ofursmellinum Avatar væntanleg á DVD og Blu-Ray þann 16. nóvember.
Leikstjóri Avatar, James Cameron, kynnti í gær glænýja byrjun sem myndin mun skarta í nýju útgáfunni. Um er að ræða senu þar sem lífið á jörðinni á 22. öldinni er sýnt, þar sem jarðarbúar þurfa að þola látlaust áreiti frá stafrænum auglýsingum og þurfa að ganga með grímur utandyra til að vernda sig gegn mengun.

Atriðið sem Cameron sýndi fréttamönnum, á að gefa mynd af ömurlegri tilveru aðalhetjunnar Jake Sully, sem leikinn er af Sam Worthington, áður en hann er ráðinn inn í Avatar verkefnið á hinni fjarlægu stjörnu Pandora.

Jake er sýndur sem fyrrum hermaður í hjólastól og býr í pínulítilu herbergi eyðir tíma sínum í sukk og barhangs, þar sem hann meðal annars slæst við mann sem áreitir konu á barnum.

Cameron sagði að hann hefði ákveðið að klippa þetta atriði út úr upphaflegri gerð myndarinnar, þrátt fyrir það hve senan er góð fyrir persónuuppbygginguna í myndinni – en með senunni er sýnt að þó svo að persónan sé í hjólastól, er hún ekki fórnarlamb. Hann er enn vígamaður, þrjóskur og kjaftfor, en með samvisku og réttlætiskennd, eins og Cameron orðaði það á fundinum með blaðamönnunum.

Cameron bætti við að áhorfendur myndu síðar í myndinni sjá úr hverju Sully er gerður, þegar fer út á meðal íbúa Pandoru. Cameron sagði að hann hefði sleppt senunni úr til að ná upp meiri hraða í myndina fyrr, og fá áhorfendur sem fyrst inn á Pandoru, þar sem Jake fellur fyrir Na´vi stríðsmanninum Neytiri.

„Fyrir mér var það leiðarljós, að myndin byrjar í raun ekki fyrr en Jake hittir Neytiri. Myndin er um þeirra samband og hvert það leiðir þau. Þannig að við vildum íhuga vel hverja einustu mínútu sem við töfðum þau í að hittast í myndinni.“

Cameron sagði einnig að þeir Jon Landau framleiðandi, hefðu viljað byrja þessa sérútgáfu myndarinnar á einhverju alveg nýju. „Við vildum ekki byrja með einhverju sem fólk hafði séð áður,“ sagði Landau. „Þegar fólk byrjar að horfa uppgötvar það strax að þeir eru að sjá eitthvað alveg nýtt, alveg nýja byrjun.“

Þessi sérútgáfa á DVD og Blu-Ray er 16 mínútum lengri en upphaflega útgáfan af Avatar, sem er orðin söluhæsta mynd allra tíma með 2,8 milljarða Bandaríkjadala í tekjur um heim allan.

Í útgáfunni eru þrír diskar, einn með nýju útgáfunni, einn með upprunalegu bíóútgáfunni og einn með útgáfunni sem var sýnd í bíó í apríl sl. sem er 8 mínútum lengri en sú upprunalega.
Þá eru í útgáfunni 45 mínútur af senum sem klipptar voru úr myndinni, auk heimildarmyndar um gerð myndarinnar og 17 stuttum atriðum um tæknina sem býr að baki, tónlist, ofl. ofl.