Kvenkyns alþjóðlegt njósnateymi í stíl við Mission-Impossible

Aðdáendur alþjóðlegra njósnatrylla fá mikið fyrir sinn snúð nú um helgina þegar The 355 kemur í bíó.

Titill myndarinnar The 355 er tilvísun í fulltrúa 355 sem var dulnefni óþekkts kvenkyns njósnara sem barðist fyrir uppreisnarmenn í frelsisbarátta bresku nýlendnanna á austurströnd Norður Ameríku frá 1763 — 1783.

Eins og fram kemur í stiklu myndarinnar þá lifir andi þessa fulltrúa áfram, og nú í hópi fyrsta flokks alþjóðlegra njósnara, einum frá Bandaríkjunum, einum frá Bretlandi, einum frá Þýskalandi og öðrum frá Kolumbíu og þeim fimmta frá Kína. Fulltrúarnir, sem allir eru konur, eiga nú sameiginlegan óvin sem þær þurfa að berjast gegn, og stór hætta er á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist út, takist þeim ekki ætlunarverk sitt. Allt málið veldur talsverðu álagi á fulltrúana sem sumir eiga fjölskyldur sem nú stafar hætta að.

Handritshöfundur myndarinnar er Pulitzer-tilnefnda leikskáldið og handritshöfundurinn Theresa Rebeck, en Jessica Chastain, ein aðalleikkonan, er framleiðandi.

Opinber söguþráður er að Mace, sem Chastain leikur, er bandarískur leyniþjónustumaður, CIA, sem missir kærsta sinn og félaga Nick, á vettvangi. Mace safnar saman alþjóðlegu teymi, hinni þýsku Marie, tölvuhakkaranum Khadijah og sálfræðingnum Graciela. Teymið þarf að jafna ágreining og endurheimta háleynilegt og hátæknilegt gereyðingarvopn sem gæti rústað heiminum.

Til í að hitta Chastain

Í samtali við vefmiðilinn CBR segir Rebeck að Chastain og leikstjórinn Simon Kinberg hafi kynnt verkefnið fyrir sér í febrúar árið 2018. „Það hringdi einhver frá umboðsskrifstofunni og sagði að Jessica Chastain vildi hitta mig. Ég var til í það og fór að hitta hana og framleiðandann Kelly Carmichael. Þar bað Chastain mig um að hugsa um The 355.“

Rebeck segir að Chastain hafi viljað að handritið yrði skrifað af konu sem hefði reynslu af að skrifa um reynsluheim kvenna og væri sterk rödd fyrir konur. Hugmyndin hafi verið að gera mynd um njósnateymi kvenna í stíl við Mission-Impossible. „Það hafði aldrei verið gerð slík mynd eingöngu með konum. Svo hafði hún samband við hinar aðalleikonurnar og þær voru allar klárar í bátana.“

Niðurstaðan var því að gera mynd um fimm njósnara í Evrópu. Rebeck skrifaði uppkast upp á 20 blaðsíður og ári síðar var farið til Cannes þar sem hugmyndin var seld. „Jessica hefur mjög góð sambönd í njósnaheiminum eftir að hún lék í Zero Dark Thirty, þannig að við fengum góða innsýn í allt er snýr að tækninni, og hvernig allt virkar í þessum heimi.“