Dóttirin veit of mikið

Mafían, hjón og dóttir sem veit of mikið, koma öll við sögu í fyrstu stiklu úr nýjustu Woody Allen myndinni Wonder Wheel. Í stiklunni sjást leikarar eins og Juno Temple, Jim Belushi, Kate Winslet og Justin Timberlake, auk vel þekktra “mafíósaleikara”.

Myndin gerist á sjötta áratug síðustu aldar, í kringum Coney Island, þar sem Parísarhjólið sem myndin er kennd við, er staðsett.

Sagan segir frá Ginny, sem Winslet leikur, en hún er fyrrum leikkona, viðkvæm, í tilfinningalegu ójafnvægi, og vinnur sem gengilbeina á veitingastað. Humpty, sem Belushi leikur, er eiginmaður hennar og stjórnandi Parísarhjólsins. Mickey, sem Timberlake leikur, er myndarlegur ungur strandvörður, sem dreymir um að verða leikskáld. Líf þeirra fer allt á annan endann þegar Carolina, sem Temple leikur, dóttir Humpty, biður um húsaskjól á flótta undan bófafjölskyldunni sem hún er gift inn í.

Kvikmyndin kemur í bíó í Bandaríkjunum 1. desember nk. en er ekki enn með frumsýningardag hér á Íslandi.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: