Úr Game of Thrones í Star Wars

Drekamóðirin Daenerys Targaryen úr Game of Thrones og Me Before You leikkonan Emilia Clarke, hefur verið ráðin í nýju Han Solo – Star Wars myndina, sem væntanleg er á hvíta tjaldið í maí 2018. Þegar hafa verið ráðnir aðalleikarinn Alden Ehrenreich, í hlutverk ungs Han Solo, og Donald Glover, í hlutverk vinar Solo, Lando Calrissian.

emilia-clarke-2

Áætlað er að hefja tökur myndarinnar í janúar nk. Næsta Star Wars hliðarmynd, kemur í bíó nú um jólin þegar Rogue One: A Star Wars Story verður frumsýnd.

Ekki er vitað nákvæmlega hvert hlutverk Clarke verður, en það eina sem Lucasfilm lætur uppi að sinni er að hún „fyllir inn í magnað persónugallerí sem Han og Chewie munu hitta í ævintýrum sínum í myndinni.“

Þeir sem fylgjast náið með ráðningum í Star Wars myndir hafa sjálfsagt frétt að Lucasfilm hafi verið að leita að þeldökkri leikkonu í aðal kvenhlutverkið í myndinni, en það virðist vera breytt núna. Mjög ólíklegt er talið að Clarke sé ráðin í aukahlutverk í myndinni, þannig að það verður að gera ráð fyrir að hún sé í stóru hlutverki, og líklegast í aðal kvenhlutverkinu.

Ekki er heldur vitað hvort að samningur Clarke við Lucasfilm kveður á um margar myndir, eða bara þessa einu. Talið er að Ehrenreich hafi samið um leik í þremur myndum, þannig að hægt er að áætla sem svo að meðleikarar hans geri slíkt hið sama.

Clarke hefur hlotið þrenn Emmy verðlaun fyrir leik sinn í Game of Thrones. Einnig hefur hún leikið í Me Before You og Terminator: Genisys.