Viggo næsta Bourne illmenni?

Nýjustu fréttir af nýju Bourne myndinni, með Matt Damon í hlutverki Treadstone útsendarans og ofurnjósnarans Jason Bourne, herma að Julia Stiles muni mæta aftur til leiks sem Nicky Parsons. Þá segir The Wrap vefsíðan frá því að Lord of the Rings leikarinn Viggo Mortensen sé í sigtinu hjá framleiðendum myndarinnar fyrir hlutverk aðal þorparans. Myndin hefur enn ekki fengið nafn.

viggo

Óvíst er samkvæmt vefsíðunni, hvort Viggo sé búinn að þekkjast boðið, en þetta er fyrsta Bourne myndin sem Matt Damon leikur í síðan Bourne Ultimatum árið 2007.

Paul Greengrass leikstýrir.

Önnur Bourne sería er í gangi samhliða þessari, en þar fer Jeremy Renner með hlutverk annars Treadstone útsendara, Aaron Cross, í Bourne Legacy.  Verið er að gera framhald á þeirri sögu einnig.

Sögusagnir voru um að Bourne og Cross myndu hittast í sömu mynd, en myndirnar eru þó þróaðar áfram sitt í hvoru lagi enn sem komið er.

Verið er að leita að tökustöðum og finna leikara fyrir Matt Damon myndina, og líklega munu tökur hefjast fljótlega þar sem stefnt er að frumsýningu 29. júlí á næsta ári, 2016.

Viggo Mortensen sást síðast í The Two Faces of January og Jauja.