Cassel verður Bourne illmenni

vincent casselVincent Cassel hefur verið ráðinn í hlutverk aðal þorparans í næstu Bourne mynd, en Matt Damon mun snúa aftur í hlutverki sínu sem Jason Bourne í myndinni.

Alicia Vikander úr The Man from U.N.C.L.E og gamli refurinn Tommy Lee Jones leika einnig í myndinni. Sömuleiðis Julia Stiles. 

Leikstjóri er Paul Greengrass, sem mætir aftur til leiks í Bourne leikstjórastólinn, en hann ritar einnig handrit ásamt Christopher Rouse. 

Söguþráður er enn á huldu, en vitað er, samkvæmt Variety, að Cassel muni leika leigumorðingja á hælum Bourne. Cassel fetar þar með í fótspor manna eins og Clive Owen, Karl Urban og Edgar Ramirez, sem léku allir illmenni í fyrri Bourne myndum, en þurftu að lúta í gras fyrir ofurnjósnaranum.

Tökur eiga að hefjast innan skamms, en myndin á að koma í bíó 29. júlí 2016.

Fyrri þrjár Bourne myndir sem Matt Damon hefur leikið í, og voru sýndar á árunum frá 2002 til 2007, þénuðu um einn milljarð Bandaríkjadala í bíó um allan heim.