Enginn Reeves í 47 Ronin framhaldinu

Samkvæmt frétt á kvikmyndavefnum Deadline þá er í vinnslu framhald á Keanu Reeves myndinni 47 Ronin. Búið er að ráða leikstjóra, en það sem kemur mest á óvart varðandi kvikmyndina er að aðalstjarna fyrri myndarinnar, Reeves, verður fjarri góðu gamni.

Leikstjóri myndarinnar er Mulan leikarinn Ron Yuan. „Ég er ótrúlega spenntur að vinna með Unversal kvikmyndaverinu ( sem framleiðir kvikmyndina ) að þessari blönduðu mynd þar sem sjálfsvarnarlistum, spennu, hrolli og cyber pönki er hrært saman,“ sagði Yuan. „Þetta verður fjör, ákaft, ofurhlaðið tryllingslegt ferðalag fyrir áhorfendur um allan heim.“

Til alls líklegur.

Leikstjóri upprunalegu myndarinnar var Carl Rinsch, og ásamt Reeves léku helstu hlutverk þau Hiroyuki Sanada, Tadanobu Asano, Rinko Kikuchi og Ko Shibasaki. Í myndinni var sögð saga af 47 samúræjum á 18. öld, sem ákveða að hefna dauða meistara síns, sem var drepinn af miskunnarlausum japönskum hershöfðingja.

Myndin er stærsta flopp á ferli Keanu Reeves, sem vekur upp spurningar um afhverju er verið að gera framhald yfir höfuð…. Tekjur myndarinnar voru einungis 38 milljónir Bandaríkjadala í Bandaríkjunum, og 151 milljón dala á heimsvísu. Framleiðslukostnaður var 175 milljónir dala.

Ástæðan fyrir því afhverju Reeves er ekki um borð, er ekki gefin upp. Reeves er maður framhaldsmynda, þannig að ástæðan er ekki sú að hann forðist framhaldsmyndir. Hann á að baki t.d. Matrix seríuna, John Wick seríuna og nú Bill & Ted myndirnar. Hinsvegar ákvað hann að vera ekki með í framhaldi ofursmellsins Speed, og voru margir sem hrósuðu honum fyrir það, enda floppaði Speed 2 í miðasölunni á sínum tíma.

En það verður spennandi að sjá Ronin 47 framhaldið, þó Reeves sé á bak og burt.