Síðasti Svarti sunnudagurinn – í bili

Költ mynda hópurinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís, sem hefur sýnt nýja költ mynd á hverjum einasta sunnudegi í allan vetur, ætlar að kveðja veturinn með glæsibrag um næstu helgi, 4. og 5. maí í Bíó Paradís, að því er kemur fram í tilkynningu frá hópnum, sem samanstendur af þeim Sigurjóni Kjartanssyni, Hugleiki Dagssyni og Sjón.

Laugardaginn 4. maí kl. 16 verður opnuð yfirlitssýning veggspjalda sem hönnuð voru á liðnum vetri fyrir sýningar Svartra sunnudaga en ýmsir listamenn lögðu hönd á plóginn, þar á meðal Ómar Örn Hauksson, Hugleikur Dagsson, Solveig Pálsdóttir, Þrándur Þórarinsson, Bobby Breiðholt, Sara Riel og margir fleiri.

Lokasýning Svartra sunnudaga fer síðan fram sunnudagskvöldið 5. maí þar sem verða sýndar tvær myndir á einni sýningu sem hefst klukkan 20:00 í Bíó Paradís.

Sýndar verða myndirnar Jómfrúarvorið (Jomfrukällan/The Virgin Spring) eftir Ingmar Bergman frá árinu 1960 og The Last House on the Left eftir hryllingsmeistarann Wes Craven frá 1972. „Þessi samsuða kann að virðast einkennileg við fyrstu sýn, en staðreyndin er sú að þessar tvær myndir byggja á sömu sögu, þ.e. seinni myndin er í raun endurgerð á þeirri fyrri, sem byggð er á gömlu sænsku miðaldarljóði,“ segir í tilkynningunni frá Svörtum sunnudögum.

Mynd Bergmans gerist í sænskri sveit á miðöldum og skartar meðal annara Max Von Sydow í aðalhlutverki. Hún segir frá ungri konu sem er nauðgað og myrt af flækingum sem síðan verða svo óheppnir að leita húsaskjóls á heimili syrgjandi foreldra fórnarlambsins.

Í Last House on the Left færir Wes Craven þessa sögu til nútímans (1972) og óhætt er að segja að sagan sé öllu blóðugri í meðförum hrollvekjumeistarans. The Last House on the Left var frumraun Cravens, framleidd af öðrum hrollvekjumeistara, Sean S. Cunningham (Friday the 13th).

„Sagan sem myndirnar tvær segja veltir upp spurningum um hefndina og siðferðislegt réttmæti hennar. Því skal lofað að áhorfendur koma ekki ósnortnir útaf þessum magnaða kvikmynda-kokteil Svartra sunnudaga.“

Svartir sunnudagar fara í sumarfrí eftir sunnudaginn, en stefna á endurkomu á komandi hausti.