Tilviljanir ganga betur upp á Íslandi

Mikill uppgangur hefur verið hjá kvikmyndaleikstjóranum Baltasar Kormáki frá því hann byrjaði fyrst að leikstýra kvikmyndum á Íslandi. Myndir hans Brúðguminn og Mýrin eru tvær af aðsóknarmestu íslensku kvikmyndum sem gerðar hafa verið og auk hinna þekktu leikara sem hann leikstýrði í Contraband hefur hann einnig unnið með heimsþekktum leikurum á borð við Forrest Whitaker, Julia Stiles, Diane Kruger og Sam Shepard.

Það er erfitt að ímynda sér spennuna sem fylgir því að búa til spennumynd í Hollywood og fylgjast síðan með viðtökum hennar (bæði aðsóknarlega séð og frá gagnrýnendum), en síðustu helgi komst Balti í sögubækurnar sem fyrsti íslenski leikstjórinn til að eiga mynd sem fer beint í toppsætið á bandaríska aðsóknarlistanum. Myndin mokaði inn rúmum $24 milljónum en kostaði ekki nema $40 milljónir.

Kvikmyndir.is átti stutt samtal við leikstjórann og útskýrði hvernig sumar urðu breytingarnar urðu til, hvað hann er að gera um þessar mundir og hvers vegna hann sóttist í það að taka stóran þátt í sömu sögunni í annað sinn.

„Frá því ég las þetta fyrst (semsagt Reykjavík-Rotterdam handritið) var ég mjög hrifinn af þessari sögu. Ég hafði ekki séð bíómynd sem gerðist í þessum hluta heimsins, sem sagt um borð í skipum þar sem er verið að smygla. Þetta var allavega heimur sem mér fannst bíómyndir ekki hafa heimsótt mikið,“ segir Baltasar. „Mér fannst líka gaman að sjá mynd um svona hetjubragð, sem hafði nánast aldrei verið í íslenskum myndum. Það var ágætis tilbreyting að sjá mynd um mann sem reynir að breyta rétt og er ekki í tómu tjóni. Þessi saga um fjölskyldumann sem reynir að vera réttu megin við línuna höfðaði alltaf mjög sterkt til mín. Aðalpersónan gerir hlutina af góðum ásetningi.“

Baltasar segir að með þeirri hugmynd að endurgera myndina hafi hann séð gott tækifæri til þess að gera eitthvað úti. „Mér höfðu verið boðin ýmis verkefni í gegnum tíðina og þetta var það sem ég hafði meira áhuga á en margt annað. Þú færð heldur ekki bestu handritin send til þín í þessari stöðu sem ég var í,“ segir leikstjórinn.

Endurgerð verður til

„Ég var með umboðsmenn hjá William Morris Endeavor (stærsta umboðsfyrirtækið í heimi), til dæmis Mike Simpson, sem er einnig umbinn þeirra Quentin Tarantino og Tim Burton, en mínum mönnum leist rosalega vel á þetta og sendu frummyndina á nokkra staði,“ segir Baltasar. „Það komu strax jákvæð viðbrögð, meðal annars frá stúdióunum Dreamworks, Relativity og Working Title. Ég hafði einmitt alltaf verið dálítið hrifinn af Working Title og fannst aðstandendur þar vera yfirleitt með mjög vönduð verk.“

Samkvæmt Balta hafði myndin líka verið send á hinn þekkta leikara Mark Wahlberg, þar sem hann er hjá sama umboðsfyrirtæki. „Mark hafði mikinn áhuga á þessu, þannig að ég fór og hitti hann, og síðan aðstandendur fyrirtækisins Working Title þar sem allur pakkinn var settur saman,“ segir Baltasar. „Þeir hjá stúdióinu þekktu myndirnar mínar miklu betur en ég gerði mér grein fyrir – til dæmis Mýrina, 101 Reykjavík og Hafið – og voru hrifnir. Það kom svo bara upp sú umræða hvort ég væri til í að leikstýra þessu. Svo bættist Wahlberg við sem framleiðandi og smám saman vex þetta og vex og verður á endanum að veruleika.“

Reykjavík-Rotterdam/New Orleans-Panama

„Eftir að framleiðendur skoðuðu frummyndina var mikið rætt um til dæmis hvaða breytingar menn vildu gera og hvernig væri best að nálgast efnið,“ segir Baltasar aðspurður að því hver hugsunin hafi verið með því að breyta staðsetningunum.

„Svo fór ég til New Orleans áður en nýja handritið fór í vinnslu til að skoða staðina áður en við byrjuðum að skrifa þetta inn í söguna, og svo fór ég til Panama og Mississippi til að finna áhugaverða staðsetningu fyrir svona smygl, því Mississippi er einmitt þekkt fyrir svoleiðis. Við vildum að minnsta kosti leita að góðum hafnarbæjum og það skemmdi að sjálfsögðu ekki fyrir að það var ódýrara að taka upp á sumum stöðunum, og það sannfærði stúdióið þar sem þeir gátu fengið meira fyrir peninginn sinn.“

Déjà vu tilfinning?

Þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn var ekki bara aðalleikari upprunalegu myndarinnar, heldur framleiðandi, kom upp sú spurning hvort hann hafi ekki fengið sterkt endurlit (déja vu) til hennar þegar Contraband var í tökum, þrátt fyrir að myndirnar séu t.a.m. gerólíkar í stíl. „Það eru einstakar senur þar sem hlutirnir geta ómögulega verið öðruvísi en í frummyndinni. Ég meina, bátur er bátur og skip eru skip, þannig að óneitanlega verða ýmsir hlutir svipaðir en svo á móti eru aðrir hlutir bara allt, allt öðruvísi. En jú, að vissu leyti fékk maður svona endurminningu, en ég hef hins vegar sett upp sömu leiksýningu aftur áður og ég breyti alltaf einhverju. Þannig að ég kom að þessu eins og þetta væri alveg nýtt en kannski með meiri vitneskju um myndina og söguna. Svona eins og heimavinna, nema ég var búinn að undirbúa mig mun betur.“

Baltasar bætir því við að eitt af því fyrsta sem hann vildi breyta í ameríska handritinu var persónan sem Ingvar Sigurðsson lék upprunalega (sem Ben Foster túlkar núna). Honum fannst aðeins þurfa að laga prófílinn og sérstaklega þetta svokallaða „motivation“ á bakvið gjörðir hans, án þess að segja frá of miklu. Baltasar segir líka að það hafi þurft að hræra aðeins í fyrri hluta sögunnar til að fínpússa söguna og gera hana trúverðugri. Að hans sögn ganga tilviljanir betur upp í handritum á Íslandi því augljóslega er þetta mjög lítið land.

Allt að gerast!

Baltasar er um þessar mundir á fullu að klára Djúpið, sem er ákveðið draumaverkefni hjá honum sem á sér mjög óvenjulega framleiðslusögu. Eftir að Baltasar kláraði kvikmyndina Inhale kom upp sú hugmynd að gera Contraband en þróunarferlið dróst svolítið á langinn þegar stúdíó voru að kasta handritinu á milli sín. Baltasar var ekki hrifinn af biðinni og ákvað þess vegna að henda sér beint út í Djúpið, og á meðan tökum á henni stóðu var hann regulega í símanum við framleiðendur í tengslum við Contraband.

Síðan vildi það svo heppilega til að boltinn fór að rúlla  um leið og Djúpið var búin í tökum. Samkvæmt leikstjóranum er ómögulegt að stoppa ferlið þegar allt er komið á skrið og þess vegna þurfti hann að bíða meðað klára Djúpið. Beint í framhaldinu réð hann Sverrir Kristjánsson klippara til að vinna í myndinni á meðan hann var erlendis að vinna í Contraband.

Djúpið, fyrir þá sem ekki vita, er byggð á sannsögulegu þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar þegar honum tókst að synda í land eftir að báturinn Hellisey, sem hann var skipverji á, sökk um miðja nótt í mars árið 1984, um 5 km frá Vestmannaeyjum. Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið en hann fer einnig með lítið hlutverk í Contraband.

Djúpið verður frumsýnd á næstunni en síðan er spennumyndin Two Guns í þróun hjá Balta, og hefur nýleg velgengi Contraband í miðasölunni vestanhafs eflaust haft sterk áhrif á þá framleiðslu. En eins og það sé ekki nóg segist leikstjórinn einnig ætla að vera með annan fótinn í leikhúsinu á næstunni.

Contraband verður frumsýnd á Íslandi á morgun.