Myrkfælin með músarhjarta!

(Yfirheyrslan er fastur liður hjá okkur þar sem við eltum uppi ýmist þekkt fólk – leikara, tónlistar- og kvikmyndagerðarmenn – og spyrjum viðkomandi spjörunum úr um ferilinn, persónuleikann og að sjálfsögðu kvikmyndasmekkinn sinn.)

Að þessu sinni fengum við hina bráðfallegu Ágústu Evu Erlendsdóttur, í spjall, sem nýlega sýndi á sér harðari hlið í spennumyndinni Borgríki eftir Ólaf de Fleur. Óvæntar vinsældir þeirrar myndar hafa varla farið framhjá neinum og var undirritaður mjög forvitinn að sjá meðal annars hvort hún væri meira fyrir spennu, drama eða grín almennt, svo eitthvað sé nefnt.

Hvað var það sem fékk þig upphaflega til að vilja fara út í leiklist?

Upphaflega datt ég svona óvart inn í þetta án þess að hugsa neitt sérstaklega út í það. Vinur minn dró mig með sér í prufur í Leikfélagi Kópavogs en það var meira eins og eitthvað man heldur en annað.  Það var þá fjarri lagi að ég hugsaði út í að leggja þetta fyrir mig.  Þegar ég byrjaði fékk ég um leið tækifæri til að búa til karaktera, hafa áhrif á söguþráðinn og það sem var verið að gera, með því held ég að ég hafi dottið svona inn í þennan bransa. Sem sagt meira sköpunin frekar en túlkun á einhverjum texta í bók eða handriti.  Ég hef leitast við að gera þetta allar götur síðan.

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir í bransanum sem þú lítur upp til? Innlendar eða erlendar. 

Eina fyrirmyndin sem ég hef átt í lífinu var þegar ég var 9 ára og bjó í Hveragerði, þá rakaði á mig „stall“ og gekk í snjóþvegnum gallafötum.  Þá var Sigga Beinteins idolið mitt og hljómsveit hennar Stjórnin fannst mér best í heimi, ég held ég hefði vaðið eld og brennistein fyrir þau, syngjandi “já ég vil lifa lífinu, upplifa slatt´af hamingju, nenn´ekki´að hanga hér, vil ferðast og skemmta mér…”.  En síðan þá hef ég ekki átt neina svona beina fyrirmynd, en það er samt fólk sem mér finnst vera frábært og ég nýt þess að fylgjast með.  Þar má helst nefna Will Farell, Andy Kaufman, Julia Davis (Nighty night) öll snillingar!  Svo hef ég alltaf verið hugfangin af Fóstbræðra  „félaginu“ eins og það leggur sig, þau eru öll frábær og þessir þættir algjörlega einstakir og standa tvímælalaust upp úr í sögu íslesks grínerís ef svo er til orða tekið.  Þau hafa öll út af fyrir sig eitthvað algjörlega einstakt. Benedikt Erlings er uppáhalds, frábær!  Fæ ekki nóg af honum. Þorsteinn gæti drepið mann úr hlátri ef hann væri lokaður inn í litlu rými með honum. Helga Braga er bara úr einhverjum öðrum heimi en aðrar leikkonur, Hilmir er bara pirrandi hæfileikaríkur og fjölhæfur leikari (gott), Sigurjón er mesta skrípi sem kamera hefur séð (og þá meina ég það á besta mögulega hátt sem hægt er að ýminda sér). Og Jón er náttúrulega bara sér kapituli út af fyrir sig.

Svona á góðum degi heima í stofu, hvort ertu meira fyrir drama, „aksjón“ eða gamanmyndir? 

Það fer mikið eftir því hvernig lyggur á manni og í hvernig félagsskap maður er í.  South Park er mjög mikið horft á hérna heima, eins UFC, og David Attenborough og grín og heimildarmyndir af ýmsum toga.

Hvaða mynd(ir) geturðu horft á aftur og aftur, og hvers vegna?

Night at the Roxbury er eiginlega eina myndin sem ég hef horf ítrekað á, aftur og aftur, eins þáttaserían Deadwood.  Ég hef horft alveg nokkrum sinnum á hana og er ekki enn búin að fá nóg af henni. Ég er annars ekki mikið fyrir að horfa mjög oft á sama efnið, en hins vegar geri ég það vegna þess að kærasti minn er mjöög mikið fyrir það og það er þá aðallega South park, Bruce Lee myndir, Jackie Chan og fleira í þeim dúr.

Hver er sú fyndnasta sem þú hefur séð?

Night at the Roxbury á alveg sérstakan stað hjá mér.  Mér finnst hún alltaf fyndin.

Áttu þér einhverja mynd sem þú horfðir mikið á í æsku en skammast þín í dag fyrir að fíla? (Svona falin nostalgía, ef svo má segja)

Við leigðum alltaf vidjótæki þegar einhver átti afmæli í fjölskyldunni og þá máttu allir velja sér eina mynd en sá sem átti afmæli mátti velja sér 2 og ráða hver færi fyrst í tækið. Þannig að ég minnist ekki að hafa bundist heitböndum við neina sérstaka, það var svo sjaldan að maður fékk tækifæri á að sjá nýtt efni.  En þegar ég var 12 ára keyptum við vidjótæki og ég man eftir að hafa tekið upp Universial Soldier af sjónvarpinu sem var síðan tekið yfir helminginn af, en ég horfði oft á seinni helming myndarinnar og fannst það mjög fínt.  Jean Claude Van damme fannst mér alveg sérstaklega heillandi í þessu veseni, verandi part maskína og þurfa að sprauta í sig næringu meðfram því að vera eltur af vonda vélmennakallinum (Dolf Lundgren).  Helmassaðir með tölvusjón, sprengjandi upp allskonar drasl.  Svo man ég líka að mér fannst Foever Young vera mjög góð mynd þegar ég var lítil.  Mel Gibson lét frysta sig í einhverri tilraunastarfemi, það átti bara að vera í stuttan tíma en hann gleymdist í frystinum og vaknaði þegar konan hans varð orðin eldgömul, mér fannst það mjög sorglegt allt saman.  Ég grét. Ég hefði eflaust fríkað út ef ég hefði séð Highlander á þessum tíma.

Hvers konar myndir (e. „genre“) geturðu bara engan veginn horft á?

Ég get alls ekki horft á spennutryllings myndir, ég er marga daga, jafnvel vikur að jafna mig eftir slík taugaáföll.  Rússíbanar, fallturnar og svona myndir, ég hef ekkert gaman af því, algjörlega andstaðan.  Ég er myrkfælin með músarhjarta!

Eins og margir vita þá er Ísland eitt af fáum löndum sem hefur hlé í bíói. Hefurðu einhvern tímann gengið út úr hléi? (ef svo er, á hvaða mynd?) 

Þær eru ófáar myndirnar sem ég hef yfirgefið í hléi, oft bíð ég ekki einu sinni eftir að það komi hlé til að yfirgefa svæðið.  Ég bíð eftir að það komi hlé á leikhússýningum, til að hylma leikurunum. Ég hef líka lent í því að ganga á milli bíósala til að athuga hvort það sé eitthvað þolanlegt yfir höfuð í bíóinu en enda stundum á því að fara bara heim.  Það er ekki langt síðan það gerðist síðast, það var í bíóinu í Egilsöll, þá gekk ég á milli Hangover 2 og X-men og fleiri mynda sem ég er fegin að muna ekki hverjar voru.  Metið á samt myndin „300,“ ég tórði í heilar 10 mínútur, sem voru frekar ill þolanlegar og ég hef sjaldan verið jafn fegin að sleppa út úr bíósal.

Ertu „húkkt“ á einhverjum þáttum um þessar mundir? Ef ekki, eru einhverjir þættir sem þú vilt helst aldrei missa af? 

Ég ekki með virkt sjónvarp og hef ekki verið með í nokkur ár.  Þannig að ég fylgist ekki með gangandi seríum í útsendingu og ég held alveg örugglega að ég sé ekki að missa af neinu.  Ég sá hins vegar Game of thrones (sem er verið að sýna á stöð 2 núna) fyrr á árinu, hún var mjög fín.  Ég er samt mikið fyrir þáttaseríur en horfi yfirleitt á þær bara í einu go´i heima.  En þær seríur sem eru alveg í sérstöku uppáhaldi hjá mér eru þessar:  Nighty night, League of Gentlemen og Deadwood.

Og að lokum…
Ferðu mikið í bíó og er eitthvað væntanlegt sem þú ert spennt fyrir?

Yfirleitt fer ég á allar þær myndir sem ég held að sé eitthvað varið í.  Eldri systkyni mín eru af Tinna kynslóðinni og fékk ég smá þef af honum þegar ég var yngri og er því einna helst spennt fyrir að sjá þá mynd.