Viltu vinna miða á Contraband?

Það kemur kannski notendum lítið á óvart að við séum að gefa opna boðsmiða á Contraband, enda er þessi vefur búinn að vera nokkuð duglegur að fjalla um hana, hvort sem það eru stanslausar fréttir um aðsóknartölur, ljósmyndir af frumsýningunni, viðtal við leikstjórann eða óbirt bíóumfjöllun. Undirritaður hefur samt alltaf haft trú á myndinni alveg frá því hann sá hana fyrst, og Kvikmyndir.is leggur mikla áherslu á það að kynna góðar myndir og ekki síst skemmtilegar myndir. Og í tilfelli myndar eins og Contraband, þá er erfitt að segja annað en að hún hitti í mark sem hraðskreið hasarafþreying með stórstjörnum.

Til að eiga möguleika á því að fá tvo frímiða, þá þarftu ekki að gera neitt annað en að svara þremur skítléttum spurningum sem sjást hér fyrir neðan. Svörin sendast á sama netfang og venjulega (tommi@kvikmyndir.is – vitaskuld) og reglulega út helgina mun ég draga x marga vinningshafa svo þeir geta skellt sér í bíó á þessa fínustu ræmu.

Því miður er 16 ára aldurstakmark á getrauninni – kennitala þarf semsagt að fylgja með!

Spurningarnar hljóma svona:

1. Hver leikstýrði upprunalegu myndinni, Reykjavík-Rotterdam?

2. Hin gullfallega Kate Beckinsale fer með eitt hlutverkið í Contraband, en hvað heitir hin myndin sem hún leikur í sem kemur út þessa sömu helgi?

3. Hvaða mynd leikstýrði Baltasar sem byggð var á þekktri bók eftir Hallgrím Helgason?

Gangi ykkur vel, góða helgi og helst ekki smygla neinu nema á þriðjudögum.