Vælumyndaviðvörun í flugvélum Virgin Atlantic

Breska flugfélagið Virgin Atlantic hefur ákveðið að gefa út sérstakar vælu viðvaranir áður en ákveðnar bíómyndir eru sýndar í bíókerfi vélanna. Gildir þetta fyrir myndir eins og Water for Elephants og Toy Story 3

Virgin kallar þetta „Aðvaranir vegna tilfinningalegrar heilsu“, en ástæðan fyrir viðvörununum er könnun sem leiddi í ljós að fólk sé mun líklegra til að bresta í grát þegar það er komið í loftið í flugvél.

Samkvæmt frétt í The Guardian, eru meðal fyrstu mynda til að fá vælustimpilinn myndirnar Toy Story 3, Adam Sandler gamanmyndin Just Go With It og Reese Witherspoon og Robert Pattinson rómansinn Water for Elephants. Fólki er ráðlagt hafa snýtipappír við höndina þegar þessar myndir byrja að spilast og vera óhrætt að hringja á flugþjón, ef þau vilja tilfinningalega aðstoð og einhvern til að gráta utan í.

Í könnun flugfélagsins á samskiptavefsíðunni Facebook, sögðu 41% karlmanna að þeir hefðu grafið sig ofan í teppi í flugsætinu, til að fela tárin fyrir öðrum farþegum. Konur voru samkvæmt könnuninni líklegri til að afsaka tárin með því að segja að þær hefðu fengið eitthvað í augað. Heilt yfir sögðu 55% svarenda að þeir hefðu upplifað meiri tilfinningasemi þegar þeir væru komnir í loftið.

Í könnuninni kom í ljós að Toy Story 3 kallaði fram mesta grátinn, en einnig eru á lista myndir eins og Brokeback Mountain og Clint Eastwood drama-ið Gran Torino.

Kvikmyndapenninn Jason Salamon, sem vinnur bæði fyrir Observer dagblaðið, og Virgin, segir: „Í flugi erum við einangruð, erum að yfirgefa ástvini okkar og langar að hitta þau aftur. Við erum hrædd, þreytt, við erum kannski búin að fá okkur í glas á tíma dags sem við erum venjulega ekki búin að fá okkur neðan í því. Þú vilt ekki hafa maskarann lekandi niður á kinnar þegar þú lendir, en þú ræður kannski ekkert við það.“

Kannist þið við þessa tilfinningasemi? Hvaða myndir fá ykkur til að gráta í flugi?

>Topp 10 vælumyndir

1. Toy Story 3

2. The Blind Side

3. Eat Pray Love

4. My Sister’s Keeper

5. Seven Pounds

6. Brokeback Mountain

7. The Notebook

8. Gran Torino

9. Invictus

10. Billy Elliot