Ítalskir uppvakningar að vakna til lífsins?

Aðdáendur Zombie mynda, eða uppvakningamynda, hljóta að vera kátir þessi misserin, enda hafa nokkrar slíkar myndir ratað í bíóhús nýlega, auk þess sem einn vinsælasti sjónvarpsþátturinn í Bandaríkjunum, The Walking Dead, er um baráttu við uppvakninga.

Og nú geta menn kæst enn frekar því vefsíðan Fangoria.com segir nú frá því að von sé á framhaldi myndarinnar Dellamorte Dellamore eða Cemetery Man ( Kirkjugarðsmaðurinn ) frá leikstjóranum Michele Soavi, en upprunalega myndin er ítölsk hryllingsmynd með gamansömu ívafi og var frumsýnd árið 1994.

Myndin er byggð á skáldsögu Tiziano Sclavi, Dellamorte Dellamore, og í aðalhlutverkum er breski leikarinn Rupert Everett en hann leikur kirkjugarðsvörðinn Francesco, sem er að reyna að halda öllum pappírum til haga á skrifstofunni á milli þess sem hann þarf að berjast við uppvakninga sem eiga það til spretta upp í tíma og ótíma, og eltast á sama tíma við endalausan kvennaher, sem allur er leikinn af Anna Falci, en konurnar líkjast allar konunni sem hann elskaði ( sem hann skaut tvisvar, einu sinni af misgáningi, og einu sinni sem uppvakning ). Einnig þarf hann að eiga við sjálfan sláttumanninn slynga, Dauðann, sem er æstur í að fá hann í vinnu til sín.

Myndin gekk illa þegar hún var frumsýnd, en hefur síðan orðið költ mynd, og meðal aðdáenda er sjálfur Martin Scorsese. Samkvæmt Empire tímaritinu þá er ítalski leikstjórinn Luigi Cozzi mjög hrifinn líka og kallar hana „A Gothic masterpiece“. Það var líka Cozzi sem sagði frá því nýlega að Michele væri byrjaður að skrifa framhald af myndinni. Hann sagði að Michele vildi að myndin yrði stórkostleg, sterk og sjokkerandi ítölsk hryllingsmynd.

Soavi hvarf af sjónarsviði kvikmyndanna eftir Dellamorte, og fór að leikstýra í sjónvarpi. Hann sneri aftur í kvikmyndirnar nýlega með glæpamyndina The Goodbye Kiss og hina sögulegu The Blood of the Losers.

Cozzi flutti einnig fleiri fréttir af leikstjóranum, sem virðist vera að komast í mikið stuð: „Michele sagði mér að hann ætlaði að gera mynd í Goonies stíl, með Nicolas Cage, um ævintýri stráka í Pompeii á Ítalíu, og leit þeirra að fjársjóðum þar.“

Empire segir að engar frekari upplýsingar séu þó fáanlegar á þessari stundu, hvort sem er um hvort að Everett snúi aftur í kirkjugarðinn, eða hvort að Cage ætli sér til Pompaii í leit að fjársjóði, en þetta hljómar samt allt spennandi. Cozzi segir að Pompeii myndin fari í tökur á þessu ári, og Dellamorte framhaldið, seint á þessu ári eða í byrjun þess næsta. Nú er bara að bíða og sjá.

Stikk: