Cooper og Reynolds draga pabba sína af golfvellinum

Þær eru sívinsælar löggu-félaga myndirnar, eins og til dæmis Other Guys, Cop Out, Beverly Hills Cop svo einhver dæmi séu nefnd. Nú ætla þeir Ryan Reynolds og Bradley Cooper að reyna sig við formið.
Leikararnir tveir ætla sér að leika í spennu-gamanmynd frá einum af handritshöfundum Up in the Air, Sheldon Turner. Myndin fjallar um tvo vini sem vinna saman í lögreglunni í San Fransisco í Bandaríkjunum, en feður þeirra voru einnig félagar í löggunni. Pabbarnir eru sestir í helgan stein, en neyðast til að taka sér hlé frá golfinu, og grípa lögreglufrakkana af snaganum til að hjálpa strákunum sínum að leysa mál, sem að sjálfsögðu á eftir að enda í einhverju óborganlegu ævintýri.
Myndin á að hafa einhverskonar Lethal Weapon yfirbragð.
Handritshöfundurinn Turner, og framleiðandinn Andrew Panay, sem gerði Wedding Crashers, voru fyrst að spá í svona mynd fyrir fimm árum síðan, en þá átti hún að heita Blowback og vera með Dwayne Johnson, a.k.a. The Rock, í einu af aðalhlutverkunum.
Reynolds kemur í bíó í næsta mánuði í spennumyndinni Buried og þar á eftir í Green Lantern næsta sumar.
Cooper, sem þekktur er úr myndinni The Hangover, kemur í bíó íjanúar í spennumyndinni The Dark Fields. Þá er framhald af The Hangover í vinnslu, og stefnt að frumsýningu í maí nk.