Ferrell á toppinn í USA

Gamanmyndin The Other Guys ýtti draumalandi Christophers Nolan í Inception úr toppsæti bandaríska aðsóknarlistans um helgina, en myndin er með þeim Will Ferrell og Mark Wahlberg í aðalhlutverki. Myndin þénaði 35,6 milljónir Bandaríkjadala og er önnur stærsta frumsýning á ferli Ferrels sem hefur átt misgóðar myndir síðustu misseri.

Fyrir Wahlberg, sem er sjaldséður í gamanmyndum þangað til núna, var þetta stærsta opnun á mynd síðan í Planet of the Apes árið 2001, en hún þénaði 68,5 milljónir dala á frumsýningarhelginni.

The Other Guys fjallar um tvo félaga í löggunni sem eru ólíkir mjög. Þeir eru að elta svikahrapp sem leikinn er af enska gamanleikaranum Steve Coogan.

Myndin hefur fengið góða dóma og höfðar mjög sterkt til ungra manna, að sögn Columbia Pictures sem framleiðir myndina. Myndin kostaði 85 milljónir dala í framleiðslu.

Síðustu myndir Ferrels, Land of the Lost og Semi Pro, ullu vonbrigðum í miðasölunni og þessi árangur er því kærkominn fyrir leikarann.

Besta frumsýning Ferrel er þegar Talladega Nights: The Ballad of Ricky Bobby var frumsýnd en hún þénaði 47 milljónir dala á fyrstu helginni.