Modern Family leikari í Prúðuleikarana

Ty Burrell einn af aðalleikurunum í sjónvarpsþáttunum geysivinsælu Modern Family, sem sýndir eru hér á landi á Stöð 2, hefur skrifað undir samning um að leika í næstu mynd um Prúðuleikarana, eða The Muppets.  Burrell mun leika eitt af „mannlegu“ hlutverkunum.

Í frétt The Hollywood Reporter kemur fram að Christoph Waltz hafi verið í viðræðum um að taka að sér hlutverkið, en of mikið annríki leikarans ( m.a. við myndina Reykjavík ) hafi komið í veg fyrir þátttöku hans.

Leikstjóri verður James Bobin, sá hinn sami og gerði síðustu Prúðuleikaramynd, en hann skrifar einnig handritið ásamt Nicholas Stoller.

Sagan í myndinni gerist í Evrópu, og eins og alltaf hjá Prúðuleikurunum þá koma ýmsir þekktir aðilar fram sem í svokölluðum Cameo hlutverkum, sem þeir sjálfir eða í litlu hlutverki. Burrell mun leika rannsóknarlögreglumann alþjóðalögreglunnar Interpol, sem er eitt lykilhlutverkanna í myndinni.

Fyrsta Prúðuleikaramyndin gekk vel í bíó og þénaði 158 milljónir Bandaríkjadala. Í henni lék aðalhlutverk gamanleikarinn Jason Segel, sem einnig átti þátt í handritsgerðinni, en hann er ekki með í mynd númer 2.

Sjáðu jólalag Prúðuleikaranna og Cee Lo Green hér að neðan: