Martröð allra brúða – [REC] 3

Margt getur farið úrskeiðis í brúðkaupum en þau gerast varla verri en þegar einn gestanna breytist í uppvakning og reynir að éta brúðhjónin. Þannig skemmtun er að finna í þriðju mynd spænsku hryllingsseríunnar [REC] sem verður frumsýnd á Spáni í lok mánaðar og hefur hlotið nafnið [REC]3 – Genesis, sem gefur til kynna að um upphaf sögunnar er að ræða. Myndin segir frá Clöru og Koldo og þeirra sérstaka degi sem verður brátt ógleymanlegur en á annan hátt en þau hefðu viljað þegar þau sjá sig knúin til þess að berjast við hina lifandi dauðu ástvini sína til þess að komast af.

Frábrugðið frá tveimur fyrri myndunum er að Paco Plaza leikstýrði þessum þriðja hluta sögunnar einn og mun Jaume Balagueró snúa aftur í leikstjórastólinn í fjórðu og síðustu mynd seríunnar, [REC]4 – Apocalypse. Og það er ekki það eina. Þetta verður fyrsta myndin þar sem found footage stíllinn verður lagður til hliðar og hefðbundin myndataka tekin upp sem gleður mig persónulega því að mínu mati er takmarkað hversu lengi hægt er að trúa því að í miðjum uppvakningafaraldri skuli nokkur maður með viti halda áfram að mynda.

Eru einhverjir fleiri spenntir fyrir þessari?