Málaliðinn Deathstroke birtir fyrstu opinberu ljósmyndina

Joe Manganiello deildi á Twitter reikningi sínum nú um helgina, fyrstu opinberu ljósmyndinni af sjálfum sér í hlutverki ofurhetjunnar Deathstroke, en Deathstroke birtist eftir að kreditlistinn hefur runnið sitt skeið í lok  ofurhetjumyndarinnar Justice League. 

Ekki er langt síðan leikstjórinn Gareth Evans ( The Raid: Redemption, The Raid 2) var sagður eiga í viðræðum um að skrifa handrit að og leikstýra kvikmynd um málaliðann Deathstroke, fyrir Warner Bros framleiðslufyrirtækið.

Manganiello mun í þeirri mynd leika Slade Wilson, hinn eineygða byssu- og sverðasveiflandi leigumorðingja.

Upphaflega átti Deathstroke að vera erkióvinur Batmans í næstu Batman mynd, en þær fyrirætlanir breyttust eftir að leikstjórinn Matt Reeves kom að verkefninu.

Deathstroke er sköpunarverk þeirra Marv Wolfman og George Pérez, og er vel þekktur málaliði í heimi DC Comics teiknimyndasagna. Hann hefur átt í höggi við Batman oftar en einu sinni, og hefur í raun haft betur í einhverjum af þeim viðureignum.

Deathstroke er í algjörum sérflokki í sínu fagi. Viðbrögð hans og styrkur eiga sér engan sinn líka, og hann er einn hættulegasti maðurinn í DC Comics heimum, þrátt fyrir að hann sé ekkert unglamb lengur.

Kíktu á myndina hér fyrir neðan: