Paul McCartney mættur í sjóræningjabúningnum

Bítillinn og rokkgoðið Sir Paul McCartney birti í gær mynd af sér í hlutverki sínu í Pirates of the Caribbean: Salazar´s Revenge.  Miðað við það sem sjá má á myndinni er eins og hann sé að fara á furðufataball, í gervi Jack Sparrow, aðalpersónu myndarinnar!

Þessi persóna er ekki mjög áberandi í myndinni, enda hefur hún ekkert sérstakt nafn, en kallast Jail Guard 2 í skrá yfir leikara myndarinnar, eða annar fangavörður.

Samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum þá er hlutverk hans þó meira en bara dæmigert örstutt gestahlutverk, því hann ku vera miðdepillinn í atriði, sem bætt var við eftir að tökum lauk.

Það gæti bent til þess að persónan er ekki beintengd við söguþráð myndarinnar.

Þetta verður fyrsta hlutverk Bítilsins, sem áður hefur leikið í Bítlamyndunum A Hard Day’s Night og Yellow Submarine, þar sem hann leikur annan en sjálfan sig á hvíta tjaldinu.

Sir Paul fetar hér í fótspor kollega síns í Rolling Stones, gítarleikarans Keith Richard, en hann lék Captain Teague, föður Jack Sparrow, í Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides, árið 2011.

Allt ofangreint skýrist samt betur þann 26. maí nk. þegar myndin kemur í bíó.