Van fær Vatnsmanninn

Eftir miklar vangaveltur hefur það nú verið staðfest af framleiðendum myndarinnar Aquaman, eða Vatnsmaðurinn, að leikstjóri Fast and Furious 7, James Wan, muni leikstýra myndinni. Myndin á að vera einstök, þ.e. ekki er gert ráð fyrir seríu af myndum um þessa DC Comics ofurhetju. Með titilhlutverkið fer Jason Momoa.

NEsWpaaFEYjgvB_1_b

Wan hefur gert nokkrar frábærar hryllingsmyndir, eins og Saw, Insidious og The Conjuring, og er sem stendur við tökur á The Conjuring 2.

Það hjálpaði til þegar Warner Bros tók ákvörðunina um að ráða leikstjórann í starfið að Fast and the Furious 7 er orðin næst tekjuhæsta mynd í heiminum í ár á eftir Avengers: Age of Ultron, með 1,5 milljarð Bandaríkjadala í tekjur alls.

Aquaman fjallar um konung hinnar týndu borgar Atlantis, sem getur lifað neðansjávar, en bylting er í aðsigi og Aquaman er þar í eldlínunni.

Myndin kemur í bíó sumarið 2018, nánar tiltekið 27. júní.