Lowe opnar sig í maí

Leikarinn og hjartaknúsararinn, hinn snoppufríði Rob Lowe, hefur nú sest við skriftir en í maí nk. ætlar útgáfufyrirtækið Henry Holt og Co að gefa út ævisögu kappans, sem er orðinn 46 ára.

Ævisagan ber heitið Stories I Only Tell My Friends, en þar fer leikarinn í smáatriðum yfir feril sinn sem leikari og sem faðir.

Forstjóri Holt útgáfufyrirtækisins, Stephen Rubin, lýsir bók Lowe sem hugleiðingum leikara á miðjum aldri, sem lítur yfir fjörutíu ára feril sinn sem leikari.

Lowe byrjaði að knúsa, kreista og kremja hjörtu unglingsstúlkna árið 1983 þegar hann lék í myndinni The Outsiders, eftir Francis Ford Coppola og síðan þá hefur hann leikið í hátt í fjörutíu myndum.

Lowe leikur nú í sjónvarpsþáttunum Brothers & Sisters og kom nýlega fram í NBC þáttunum Parks and Recreation.