Hugsið ykkur. Fyrir nánast heilli öld síðan hefði þetta verið dæmigert afþreyingarbíó. Í dag er þetta séð sem einhvers konar listræn tilraun, sérsniðin fyrir bíónörda sem elska að vitna í kvikmyndasögu, eldri kynslóðir sem ólust upp við þöglar myndir og snobbaða gagnrýnendur með fortíðarþrá.
Það er ekki af ástæðulausu að kvikmyndagerðin þróaðist eins og hún gerði á þriðja áratug síðustu aldar, því eftir dauða þöglu myndanna fóru kvikmyndagerðarmenn að finna sér betri og fjölbreyttari leiðir til að segja sögur á skjánum. Þöglar bíómyndir höfðu oft sinn sjarma og voru talsvert kröfuharðari en þær litu út fyrir að vera, en þær voru alltaf í sínu fasta, takmarkaða formi (með t.d. ýktri líkamstjáningu leikaranna, textaspjöldum og tónlist sem ýtti alltaf undir tilfinningar á mjög áberandi hátt). Það hélt enginn í þennan stíl vegna þess að hann var svo kúl. Betri lausnir voru fundnar. Alveg eins og þegar leikstjórar byrjuðu að geta nýtt rammana sína á allt annan hátt með hinni mögnuðu breiðtjaldsuppfinningu.
Það sem ég er að reyna að segja er að The Artist er fyrst og fremst gerð til þess að vera af gamla skólanum í stað þess að segja ákveðna sögu sem býður upp á klassíska stílinn sem hún er gerð í. Með öðrum orðum, þá er hún umvafin nostalgíu af engri sérstakri ástæðu en til að vera nostalgíumynd, annað en til dæmis War Horse, sem sagði kröftuga sögu sem studdist við gamalt form sem risastór bónus.
Svo ég snúi mér að því góða, þá er The Artist í hnotskurn létt, ljúft og skemmtilegt tímaflakk sem nær markmiði sínu gallalaust, en það þýðir ekki endilega að hún sé meistaraverk. Ég dáist samt svo þvílíkt mikið að vinnunni og áhuganum sem fór í gerð myndarinnar. Hún er svo einlæg og krúttleg og það er eins og hver einasti aðstandandi hafi gert heilmikla heimavinnu fyrir fram, til að passa það að hún gæti allt eins verið jafngömul og hún þykist vera. Leikararnir eru gjörsamlega óaðfinnanlegir. Jean Dujardin veit alveg hvernig hann á að vera og miðað við frammistöðuna mætti halda að hann hefði leikið í svona myndum oft áður. Það verður aldrei leiðinlegt að fylgjast með honum, og sömuleiðis er Berenice Bejo alveg geislandi fögur og stendur sig með prýðum. Myndin er líka nokkuð snjöll á köflum og sýnir það best með stökum senum sem snúa út úr stílnum og gera grín að honum, eins og til dæmis frábær martraðarsena þar sem tónlistin hættir skyndilega og heyrast eðlileg hljóð í staðinn. Í fyrstu allavega. Stórkostleg sena, og ekki bara fyndin og minnisstæð, heldur passar hún alveg við umfjöllunarefnið.
Ef myndin hefði fundið aðeins betri sögu til að segja í þessum stíl, hefði mér kannski ekki liðið eins mikið og þetta væri meira skreyttur og metnaðarfullur óður, í stað þess að vera glæsileg og áhrifarík bíómynd. Sagan er ekki bara hefðbundin, heldur næstum því sett alfarið saman úr Singin’ in the Rain og A Star is Born (sem eru tvær af mínum uppáhaldsmyndum). Ég get sætt mig við ófrumlegheit en málið er að þær myndir fóru bara miklu betur með efniviðinn því þessi er ekki beint að bjóða upp á margar fjölbreyttar aðferðir til að segja sömu sögu. Myndin rennur vel í gegn en er samt eitthvað svo grunn á sama tíma. Það er ekki eins og í hana vantaði efnið, þar sem sagan fjallar um einhver stærstu tímamót í sögu kvikmynda.
Þöglar myndir voru auðvitað börn síns tíma og það eru sumar sem ég, ennþá í dag, horfi reglulega á. Ég kynntist þöglu bíói sem krakki í gegnum gamlar VHS-spólur sem amma mín átti og sú sem fór oftast í tækið var Modern Times með Chaplin, en það má reyndar deila um það hvort hún teljist með því hún inniheldur eitthvað af tali líka (alveg eins og þessi). Samt, þegar þú horfir á þögla mynd, þá meturðu hana ekki eins og þú metur flestar aðrar kvikmyndir. The Artist vill að þú takir sig í sátt eins og maður gerði með þessar sígildu myndir og afsakir hana út af klassíska gildi sínu. Það virkar samt ekki þannig.
Ekki samt misskilja mig. Þetta hljómar allt voða neikvætt en þegar uppi er staðið fannst mér þetta mjög ánægjuleg upplifun. Hún er samt ekki nærri því jafngóð og hún heldur og alls ekki nógu tilfinningalega fullnægjandi fyrir minn smekk. Hún er svolítið „gimmick,“ en ég mæli samt með henni, því ef eitthvað er að marka viðtökurnar er ég í minnihluta með því að elska hana ekki. Kannski munt þú gera það.
Svo er hundurinn alveg yndislegur. Næstbesti hundur frá árinu 2011, á eftir honum Tobba litla í Tinna.