Mikilvægt efni, meðalgóð útfærsla

Bully er sérstaklega gerð til þess að gera mann reiðan, leiðan og segja fólki að ruslast á fætur svo það verði einhver breyting í heiminum. Mér finnst þess vegna ekkert ólíklegt að hér sé mögulega ein mikilvægasta heimildarmynd sem hefur fengið víða dreifingu, eða a.m.k. hvað borðliggjandi málefni varða.

Stríðnispúkar, hrekkjusvín og/eða fantar (hvað sem þú vilt kalla þá) hafa alltaf verið til staðar og eru álíka sjálfsagður partur af lífinu og unglingabólur, og gegna meira að segja svipuðu hlutverki. Hvort tveggja er hryllilega tilgangslaust og skapar bara óöryggi og óbærilega vanlíðan. Myndin kemur skilaboðum sínum vel til skila og togar í fáeina hjartastrengi, sem í rauninni dugar til að tryggja það að foreldrar og eineltisfórnarlömb um allan heim eiga að sjá hana undir eins. En ef við ætlum að ræða um það hvort þetta sé góð heimildarmynd eða ekki verð ég að hrista hausinn aðeins og segja að það vanti ýmislegt upp á, eða réttara sagt örlítið en afskaplega mikilvægt.

Myndin hefur augljóslega ekkert nema jákvæðan ásetning, en þó svo að hún fjalli um hræðilegan hlut, þá þýðir ekki að hún verði bara sjálfkrafa frábær, og mér fannst oft eins og leikstjórinn hafi annaðhvort verið uppiskroppa með efni eða bara viljandi ákveðið að berja ofan í okkur sömu skilaboðin aftur og aftur. Kannski hefur það verið ætlunin, en þá kemur þetta út eins og einhvers konar „stöðvum illsku“ áróður í stað þess að kryfja hugtakið einelti og kafa ofaní ýmsar hliðar þess.

Myndin stúderar aldrei hlið gerandans og sálfræðiflækjurnar sem geta oft fylgt þeim sem njóta þess að stríða minni máttar. Í staðinn er bara einblínt stanslaust á fórnarlömbin, og án þess að viðurkenna það þá nýtur leikstjórinn þess dálítið að mjólka sorgina. Þegar lengra leið á myndina fannst mér bara vanta texta sem segði: „Gráttu núna því þetta er alvöru!!“ Og maður fær þá tilfinningu að ef maður skælir ekki yfir þessari mynd þá verði maður dæmdur sálarlaus.

Einelti er ekki alltaf svart og hvítt, en þessi mynd sýnir það eins og þetta sé ekki flóknara en það. Það finnst mér vera stór galli, það að hún hafi varla einu sinni áhuga á því að skoða allar hliðar og síðan einblína á fórnarlömbin í skornum skammti frekar en að sjúga tárin þín með uppfyllingarefni. Það er jafnvel gefið í skyn að einn krakkinn sem er stanslaust strítt, sýni áhuga á því að leggja aðra í einelti sjálfur. Þetta finnst mér nokkuð merkileg pæling en myndin nennir ekkert að grandskoða slíkt um leið og þetta er sagt. Í staðinn þurfa nauðsynlega að koma þessar skilgreiningar um hverjir eru vondir og hverjir eru ekki vondir.

Það vantar einfaldlega meira efni í myndina og líklegast meiri fjölbreytni, því umræðan býður hiklaust upp á það og ef aðstandendur þessarar myndar eru ósammála því þá eru þeir í harðri og barnalegri afneitun. Einelti er aldrei af hinu góða þótt kannski fáeinir aðilar vilji deila um það hvort þeir hafi þroskast í betri manneskjur og orðið sterkari fyrir vikið. Kannski er það satt, og ef eitthvað þá líður mér eins og Bully hafi átt að kynna sér slíkar umræður. Eins og ég segi: Nóg í boði!

Ég varð sjálfur fyrir einelti í grunnskóla, ekki að það komi málinu við (sem það reyndar gerir) og guð veit hvernig ég hefði komið út ef ég hefði getað komist hjá því. Ég styð skilaboð myndarinnar 100% þegar hún reynir að hvetja fólk til þess að vera meira vakandi fyrir eineltistilfellum í kringum sig til að koma í veg fyrir sjálfsmorð eða annað hræðilegt. Þetta gerir myndina rosalega mikilvæga og ég finn ofboðslega til með þeim fjölskyldum sem hafa misst börnin sín vegna þunglyndis. Það sem ég styð hins vegar ekki er hvernig myndin nálgast þessi skilaboð sín. Myndefnið er kröftugt og á alveg heima í miklu, miklu betri heimildarmynd en þessi leikstjóri hefði þurft á mikilli aðstoð að halda til að vinna betur úr því.

Og fyrst þessi mynd gengur alfarið út á það að koma skilaboðunum á framfæri í stað þess að vera eins og hver önnur heimildarmynd, af hverju í fjáranum er þá ekki hægt að sýna hana frítt fyrir almenning??


(6/10)