Eitruð vælumynd eða vandað drama?

Persónulega finnst mér ómögulegt fyrir nokkurn mann að vera með brennandi áhuga á kvikmyndum af öllum stærðum og gerðum án þess að vera reiðubúinn til þess að opna sig tilfinningalega gagnvart einlægum og dramatískum sögum sem vita hvað þær eru að gera. Ég skal alveg viðurkenna, að burtséð frá því að vera loðið ílát af testósteróni er ég líka með krúttlegt lítið bangsahjarta sem slær fast og virkjar mína kvenlegu hlið þegar ég sé eitthvað sem ég kalla átakanlegt eða áhrifaríkt.

Hins vegar, þrátt fyrir þessa niðurlægjandi staðreynd um mín andlegu gangverk, verð ég að játa að ég hef ofsalega takmarkaða þolinmæði fyrir dramamyndum sem misnota tilfinningar manns og spila á þær á svo ódýran, yfirdrifinn hátt að kjánahrollurinn fer hratt að þróast út í andlitsgrettur og taugakippi. Þarna er ég að tala um myndir sem nota til dæmis banvæna fiðlutónlist, nærskot af hágrenjandi persónum og einkennast af „slow motion“ ofnotkun og ekki síst eitruðum, klisjukenndum frösum. Sumir kalla þetta tilfinningaklám, en ég kýs að kalla þetta óformleg brot á mannréttindum. Hugsið ykkur um andstæðuna við vonda sitcom-þætti, þar sem hlátur heyrist reglulega í bakgrunninum svo vitfirrtir áhorfendur vita hvenær tímabært er að hlæja. Ég allavega veit ekki um ykkur en frekar vil ég að bíómynd spilist eðlilega út án þess að toga mig með sér þangað sem hún er að fara. Frekar vil ég komast þangað sjálfur, og ef hún togar í hjartarætur mínar, þá er hún betri fyrir vikið.

Á yfirborðinu er Extremely Loud and Incredibly Close nákvæmlega ein af þessum myndum sem rembist við það að vera vasaklútamynd, en ég skal samt játa það að ég er hneykslaður, áttavilltur og (vitaskuld) dauðfeginn yfir því að hún skuli ekki vera tíu sinnum pínlegri en hún er. Myndin hefur öll áhöldin sem hún þarf til að flokkast undir þetta hefðbundna tilfinningaklám; Aðalpersónan er ungur strákur með Asperger-heilkenni, sem í upphafi sögunnar missir föður sinn í hryðjuverkaárásunum þann 11. september, og til að bæta gráu ofan á svart er samband stráksins við mömmu sína allt annað en náið. Ég hef sjaldan séð aðra eins áskrift á táraflóði, og hér hefði verið opið tækifæri til að gefa áhorfendum grimmt og niðurdrepandi endurlit á þennan eftirminnilega sorgardag með því að ganga langt yfir strikið með áðurnefndum brögðum.

Sem BETUR fer neitar Stephen Daldry að fara þá leið sem Oliver Stone fór árið 2006 með verstu mynd ferils síns, og þess vegna kemur hann í staðinn með mynd sem er vandlega sett saman og undarlega hjartnæm (já, ég sagði það!). Daldry hefur alltaf verið í kærleiksríku uppáhaldi hjá snobbuðum gagnrýnendum en sjálfur hef ég aldrei verið neitt voðalega hrifinn af honum. Hann gerir, jú, ávallt vandaðar og tilfinningaríkar myndir en oftast eru þær bara óminnisstæðar Óskarsbeitur í dulbúningi. Ég ætla ekki að segja að Extremely Loud teljist ekki með í þeim flokki, því hún gerir það svo sannarlega og er langt, langt frá því að vera meistaraverk. En hún er líka langt frá því að vera eins vandræðaleg í dramanu og margir munu gera ráð fyrir.

Daldry gengur stundum yfir strikið í væmninni (og hafið það endilega í huga fyrirfram að myndin er ógurlega væmin – og frekar tilgerðarleg) en hann er samt ekki að totta tárkirtlanna eins og maður heldur, og þegar kemur að senum sem virka, þá hittir slær myndir algjörlega á rétta strengi. Bestu móment myndarinnar koma einmitt frá meisturunum Tom HanksJeffrey Wright og (að sjálfsögðu) Max von Sydow – sem segir minna í þessari mynd heldur en Jean Dujardin gerði í The Artist. Leikurinn gerir myndina líka trúverðuga því flestir fullorðnu leikararnir eru nógu lágstemmdir til að koma í veg fyrir melódramatískan ofleik, sem efnið býður óneitanlega upp á. En það breytir þó litlu ef Thomas Horn stendur sig ekki í aðalhlutverkinu, því þessi ofvirki strákpjakkur er nánast í hverri EINUSTU senu. Og ég væri að ljúga ef ég myndi ekki segja að það tekur stundum á taugarnar að fylgjast með honum. Karakterinn er óvenjulega skarpur miðað við aldur en á það sömuleiðis til að vera ofsalega ofvirkur og með þreytandi skapsveiflur, ásamt því að hugsa ekki alltaf rökrétt. Horn er nokkuð einstakur ungur maður, og hann er bæði ástæðan fyrir því að myndin er góð en hann er líka ein ástæðan fyrir því að myndin fær ekki hærri einkunn. Býsna fyndin pæling í sjálfu sér, en þetta er heldur ekkert auðvelt hlutverk, hvað þá fyrir einhvern á þessum aldri.

Tónlistin fer stundum líka í mann og lokaskot myndarinnar fær mann til að halda að þetta sé enn eina saumaklúbbs(sjónvarps)myndin, en ég verð samt að játa að þrátt fyrir ýmsa pirrandi ókosti tekst heildarniðurstöðunni að skila af sér huggulegri sögu með sómasömum skilaboðum um söknuð, eftirsjá og þroska. Gefið henni endilega tækifæri og ykkur er alveg óhætt að lauma einum eða tveimur vasaklútum með. En það veltur svosem á því hversu bjartsýn og umhyggjusöm týpa maður er.

PS. Hafið þið pælt í því hvað EL&IC og Hugo eiga skuggalega margt sameiginlegt, þrátt fyrir að vera gerólíkar? Rennum stutt yfir það:

– Báðar myndirnar fjalla um sérvitran, ungan strák (með stór, krúttleg augu) sem er þroskaðri heldur en flestir jafnaldrar sínir. Hann sést í langflestum atriðum myndarinnar og hefur heldur sérstakt áhugamál.
– Strákurinn missir föður sinn í byrjun sögunnar (flashback-senur spila stóran þátt, til að sýna hvað feðgarnir voru nánir) og gengur afgangurinn út á það að leitast eftir skilaboðum sem faðirinn skildi kannski/kannski ekki eftir. Hefst þá ævintýralega leitin.
– Í Hugo er strákurinn leita að ákveðnum lykli. Í Extremely Loud er strákurinn með einungis lykil, en veit ekkert hvert hann fer.
– Gamall maður með óljósa fortíð myndar sérstök tengsl við drenginn. En eins perralega og það hljómar, þá kemur síðar í ljós að þeir eiga kannski eitt mikilvægt sameiginlegt.

Fleira get ég ekki talið upp án þess að spoila. Prófið sjálf að bera myndirnar saman, efnislega séð.