Lísa yfir milljarðinn

Kvikmyndin Lísa í Undralandi eftir Tim Burton er um það bil að verða sjötta kvikmyndin í sögunni til að fara yfir eins milljarðs Bandaríkjadala markið í miðasölu á heimsvísu.

Myndin sem nýlega kom út á vídeó í Bandaríkjunum, er enn sýnd í bíó, og hefur nú þénað meira en 332 milljónir dala í Bandaríkjunum og 667 milljónir utan Bandaríkjanna.

Lísa í Undralandi er næst tekjuhæsta mynd Disney fyrirtækisins frá upphafi, en hún kemur þar næst á eftir Pirates of the Carribean: Dead Man´s Chest, sem þénaði 1,07 milljarð Bandaríkjadala í miðasölunni um allan heim árið 2006.

Aðrar myndir í sögunni sem farið hafa yfir eins milljarðs dala markið eru Avatar, Titanic, The Lord of The Rings: The Return of the King, Dead Man´s Chest og The Dark Knight. Allar þessar myndir hafa verið frumsýndar á sumrin eða um hátíðar, en Lísa var frumsýnd nú í vor.

ÞB.