Lin tilkynnir tökulok Fast and Furious 9

Leikstjórinn Justin Lin, sem leikstýrir nú Fast and Furious mynd í fimmta skiptið, eftir að hafa tekið sér pásu í síðustu tveimur myndum, hefur tilkynnt að tökum sé lokið á níunda bílahasarnum, sem enn hefur ekki fengið opinberan titil. Frumsýning er áætluð á næsta ári. Segir Lin í Twitter færslu vegna þessa að um metnaðarfyllstu myndina til þessa sé að ræða.

Frá þessu er greint á vef flickeringmyth.

Fjórar kempur.

Í myndinni leika ýmsar gamalreyndar hetjur, fólk eins og Vin Diesel, Michelle Rodriguez, Tyrese Gibson, Jordana Brewster, Nathalie Emmanuel, Chris ‘Ludacris’ Bridges, Charlize Theron og Helen Mirren, ásamt nýliðunum John Cena (Bumblebee), Finn Cole (Peaky Blinders), Anna Sawai (Ninja Assassin), Vinnie Bennett (Ghost in the Shell), Michael Rooker (Guardians of the Galaxy), Cardi B (Hustlers), MMA bardagamaðurinn Francis Ngannou og söngvarinn Ozuna.

Fast and Furious 9 verður frumsýnd hér á Íslandi og um allan heim, 22. maí nk. Þess ber að geta að Lin verður einnig við stýrið í Fast and Furious 10 sem kemur í bíó 2. apríl, 2021.