Leikur betur eftir reynslu sem ríkisstjóri

Hollywood stjarnan Arnold Schwarzenegger segir að það sé frábært að vera mættur aftur í hasarmyndirnar.

Leikarinn, sem er 65 ára gamall, var í sjö ár ríkisstjóri Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum. Hann leikur lögreglustjórann Ray Owens í spennumyndinni The Last Stand, en þetta er fyrsta aðalhlutverk Schwarzenegger í tíu ár, eða síðan hann lék í Terminator 3: Rise Of The Machines árið 2003.

„Það er frábært að vera byrjaður að leika aftur. Reynsla mín sem ríkisstjóri hefur bætt mig sem leikara, þannig að það er gott að vera kominn aftur,“ sagði leikarinn við breska blaðið The Independent við frumsýningu The Last Stand í London.

Schwarzenegger var sérlega ánægður með að sjá hvað margir mættu til frumsýningarinnar þar sem mjög kalt var í veðri.

„Það er alltaf gaman þegar þú sérð svona mikið af fólki í svona köldu veðri. Fólk stendur hér í marga klukkutíma. Það sýnir hvað aðdáendur mínir eru staðfastir og tryggir, og mér þykir vænt um þá,“ sagði Arnold.

The Last Stand verður frumsýnd á Íslandi 1. febrúar nk.